Það rignir í Porto Santo Stefano í dag og kærustuparið á mótorhjólinu sem á leið eftir Via Cuniberti götunni rétt við höfnina, er holdvott og hrakið á ferðum sínum um bæinn. Það hefur rignt í alla nótt og á gangstéttum eru stórir, djúpir pollar. Allt þetta sé ég þegar ég hef opnað vefmyndavélina sem beint er niður á aðaltorgið í Porto Santo Stefano. Ferjan sem leggur frá landi klukkan 10:15 hefur opnað landganginn en það eru ekki sjáanlegt að margir ætli með morgunferjunni.
Ég segi frá þessu hér því í dag, 11. júní, hafði ég sjálfur í eigin persónu ætlað að keyra inn í litla ítalska bæinn Porto Santo Stefano. Þar er einn barnaskóli, á slökkviliðsstöðinni er einn gamall brunabíll og í miðbænum er einn bakari sem selur brauð og frægar möndlukökur. Hann heitir líka Stefano, bakarinn, alveg eins og bærinn.
En í dag er ég hvorki á Ítalíu né í smábænum á vesturströnd landsins heldur sit ég enn fastur í dönskum smábæ á austurströnd Sjálands. Hér rignir ekki og hér eru ekki bakaðar frægar möndlukökur.
ps. Í gærkvöldi dó mamma hans Lars.