Espergærde. Hinir fordómalausu.

Mennirnir tveir sem hittast alla morgna niður við baðbrúna með hundana sína voru sestir á bekkinn sinn þegar ég gekk fram hjá í morgun. Annar er dökkhærður og þögull en hinn er ljóshærður og gasprar í sífellu. Báðir hafa hunda í bandi. Ég þekki þessa menn ekki en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að annar sé betur gefinn en hinn, það er sá þögli. Þetta eru fordómar. Enginn er víst fordómalaus.

Ég er viss um að Ragnar Jónasson, rithöfundurinn, hafi mátt kljást við alls konar fordóma. Hann er lögfræðingur og það kveikir hjá sumum á ákveðnum fordómum. Hann vann hjá Gamma og það setur persónu hans inn á ákveðið fordómahættusvæði. Hann skrifar glæpasögur, hmmm …. Hann notar Agöthu Christie sem fyrirmynd -> er það nú merkilegur litteratúr gætu verið fordómafull viðbrögð … svona get ég haldið áfram. En þetta teljast ekki alvarlegir fordómar og ekki mjög meiðandi. Kannski finnst Ragnari Jónassyni samt pínulítið leiðinlegt að verða fyrir barðinu á þeim.

Annar rithöfundur, Rowling, lenti í hörðum mótvindi í vikunni og þurfti að þola alls konar netdónaskap fyrir tweet-færslu sína. Ég held að henni hafi orðið um og ó. Þótt hún vilji vera fordómalaus og góð, styðja þá sem minna mega sín virðist hún hafa misstígið sig á fordómaveginum. Maður getur haft alls konar fordóma en Rowling hefur víst valið ranga fordóma og því hefur hún – kannski til að milda þá sem meta fordóma og ákveða hvort og hvernig ber að refsa – skyndilega valið að opinbera að hún er líka fórnarlamb. Það er ekki auðvelt að lifa í netheimum, sneiða hjá röngum fordómum og ýta á hina réttu hnappa.

En ég minntist á Ragnar Jónasson af því að ég er svo hrifinn af dugnaði hans. Nú er ein af bókum hans komin í 2. sæti metsölulista í Þýskalandi … það er flott.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.