Epspergærde. Með tippi úr pappa.

Ég sofnaði yfir bókinni minni í gærkvöldi og vaknaði um miðja nótt með iPadinn ofan á mér og gleraugu á nefinu. Mér fannst ég hafa sofið lengi og ég var úthvíldur. Ég fór því á fætur þótt klukkan væri ekki orðin fimm og settist út á verönd með kaffibollann minn, ristað brauð og dagblað. Það er var kyrrð í morgunsólinni og ég heyrði ekki betur en að allir fuglarnir í garðinum væru í essinu sínu.

Ég hljóp mína kílómetra síðdegis í gær og held enn að mestu áætlun minni um að hlaupa að minnsta kosti 5 kílómetra annan hvern dag. Ég valdi að hlaupa nýja leið í gær; í átt til kirkjunnar, eftir skógarstígunum og endaði á ströndinni við baðbrúna á bekknum þar sem félagarnir tveir með hundana hittast á morgnana. Ég hafði ekki setið lengi og jafnað mig eftir hlaupið þegar nágrannakona mín kom gangandi með bréfpoka í hendinni Hún hafði verið í bakaríinu.

„Siturðu bara hér. Varstu úti að hlaupa?“
„Já, ég hleyp annan hvern dag reyndi að setja ný met. The only way is up, eins og maður segir.“ Ég veit ekki hvort ég var of drjúgur með mig. En hún svaraði mér nokkuð hvasst.
„Nú veistu vel að lífið gengur ekki út á að fá hrós?“
Þessi staðhæfing nágranna míns kom svolítið flatt upp á mig og ég vissi ekki alveg í hvaða samhengi hún meinti þetta.
„Ehh … já, það er rétt hjá þér.“
Hún settist við hliðina á mér rennsveittum og enn hálfmóðum eftir langhlaupið. Ég veit ekki við hvað þessi nágrannakona mín starfar, ég hef aldrei skilið starfstitilinn. En hún hefur alltaf eitthvað nýtt að segja mér og mig grunar að hugrenningar hennar sem fljóta svo létt frá henni eigi upptök sín frá vinnustað hennar eða lífinu á vinnumarkaðinum eins og það er kallað.
„Þið karlar!“ sagði hún svo og fussaði lágt. „Þegar ég var lítil stelpa var heitasta ósk mín að vera strákur. Ég fylgdist með lífi bræðra minna og í mínum augum virtist það svo óendanlega skemmtilegt og mig langaði svo mikið að fá þeirra líf. Það var miklu fjörugra og áhugaverðara hjá þeim en hjá mér og vinkonum mínum. Mig fór a dreyma um að verða strákur. Ég fékk satt að segja á heilann að ég ætlaði að verða strákur og foreldrar mínir höfðu miklar áhyggjur af mér. Þessi þráhyggja gekk svo langt að ég bjó til tippi úr pappa og tuskum og festi framan á mig. Með þetta tippi gekk ég í nokkrar vikur. Ég hefi sennilega beðið um kynbreytingu ef ég hefði fæðst 25 árum síðar.“
„Nú, já,“ sagði ég og virti ungu konuna fyrir mér. Ég gat ekki alveg séð þessa hlið hennar fyrir mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.