Espergærde. Konan sem hvíslaði

Það er sennilega bara ein bókakápa – ég hef skoðað margar bókakápur af miklum áhuga – sem hefur kveikt hjá mér brennandi löngun til að sökkva í sjálft innihald bókar. Samt las ég aldrei söguna á meðan kápumyndin fyllti huga minn. Bókina las ég sennilega tíu árum síðar. Skáldsagan sem um ræðir er saga Linn Ullmann Áður en þú sofnar. Ég get sagt það hér og nú að bókin náði ekki að uppfylla þær væntingar sem kápumyndin hafði vakið. Ég læt mynd af bókakápunni fylgja hér. Að vísu hefur kápan fölnað með árunum og vekur ekki sömu kennd nú og hún gerði þegar bókin kom út en það var árið 1998 (22 ár eru liðin!).

Kápan á bók Linn Ullmann:
Áður en þú sofnar.

Ég minnist á þessa kápumynd því í gærkvöldi gróf ég einmitt bókina upp undan bókastæðu. En úr því ég er að tala um Linn Ullmann get ég upplýst að ég hef borðað kvöldmat með henni (eða setið í kvöldverðarboði með henni eins og það heitir) og það var kvöld sem vakti uppnám. Við matarborðið sátu átta manneskjur. Það var vetur og það var mjög skuggsýnt inni í stofunni þar sem borðhaldið var. Sennilega voru vaxkerti eini birtugjafinn. Um mitt kvöld gerðist það að húsráðandi stakk upp á því að haldin yrði spurningakeppni.

Ein kvennanna í samkvæminu lýsti því strax yfir að hún þyldi ekki spurningakeppni, hún hefði svo lélegan heila, hún gæti ekki munað neitt lengur en í eina mínútu. Hún hefði meira að segja leitað til læknis til að fá úr því skorið hvort eitthvað væri að henni. En þrátt fyrir mótbárur minnislausu konunnar var keppnin haldin. Fyrst voru bornar upp léttar spurningar sem allir gátu svarað og smám saman urðu spurningarnar erfiðari. Það var ein kona, yngri en ég, ákaflega fínleg (bæði í vexti og hreyfingum), sem gat svarað öllum spurningunum. Hún hvíslaði svörin, sem var samræmi við byggingu hennar og hreyfingar. Linn Ullmann svaraði ekki einni spurningu, heldur sat þegjandi með ógreinilegt bros á vörum. Svo kom spurning um biblíutilvitnun og enn svaraði fíngerða konan og hún hvíslaði. Hún hvíslaði svarið við biblíutilvitnunina og hvíslaði um leið ritningarstaðinn. Ég man ekki sjálfa tilvitnunina en fíngerða konan svaraði, endurtók orðin og svo ritningarstaðinn.

Og einmitt þá gerðist það sem vakti svo mikið uppnám. Maður konunnar sem í upphafi hafði lýst yfir að hún þyldi ekki spurningarkeppni féll gersamlega fyrir fíngerðu konunni. Og það var öllum við matarborðið svo augljóst. Ég held að það hafi verið þetta hvísl hennar sem heillaði hann. Því hann sagði hálfdáleiddur: „Þú hvíslar.“ Það sem eftir lifði kvölds gat maðurinn ekki látið konuna í friði. Ég heyrði síðar að þau hefðu orðið leynilegir elskendur og það hefði nærri því gert út um hjónabönd þeirra beggja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.