Espergærde. Misheppnuð útgáfuævintýri og Emma.

Næturgalinn eftir HC Andersen er ævintýri. Eitt af ótalmörgum ævintýrum danska ævintýraskáldsins. Í gær tók ég fram bókina með öllum ævintýrum hans er safnað saman á einn stað og las Næturgalann. ÉG hélt að ég fyndi eitthvað þar sem ég svo fann ekki. En þegar ég hafði lesið ævintýrið rifjaðist það upp fyrir mér að einu sinni bað ég Þórarinn Eldjárn, að þýða þessa bók – það er að segja þessa safnbók Andersens. Einhvern veginn gufaði þetta góða verkefni upp mér til nokkurs ama.

Það eru tvö önnur verkefni sem ég setti í gang sem útgefandi á Íslandi (fyrir langalöngu) og ég er enn að svekkja mig svolítið yfir að þau skildu misheppnast. Ég gerði til dæmis þau mistök að biðja Arthúr Björgvin Bollason að skrifa fyrir Bjart ævisögu Ragnars í Smára. Ekkert kom út úr því. Arthúr Björgvin hefur margt til síns ágætis en til þessa verks var hann ekki rétti maðurinn.

Og einu sinni skrifað ég upp á samning um ljóðabók en komast síðar að því að það var bara svindl og svínarí frá hendi höfundar sem gerði líka samning við annað forlag um sömu bók og fékk því tvöfalda greiðslu fyrir eina bók. Ég er enn fúll yfir óheiðarleika þess höfundar.

En ekki meira um ergelsi vegna misheppnaðra útgáfuævintýra. Ég hressi mig við að hafa þessar vikurnar þýðingu Péturs Gunnarssonar á Frú Bovary ávallt við höndina. Ég les kafla og kafla bara til að skoða hina fögru og hugvitsamlegu notkun Péturs á íslenskunni.

Linn Ullmann, norska skáldkonan sem ég talaði um í gær sagði einu sinni frá því að mamma hennar, leikkonan Liv Ullmann, hefði verið svo heilluð af sögu Flauberts um Emmu Bovary að hún las hann margoft. Kannski sá Linn Emmu í mömmu sinni og þess vegna minntist hún svo oft á þetta.
„Um hvað er þessi bók?“ spurði hún mömmu sína sem lá sem oftar upp í rúminu sínu og las Frú Bovary..
„Hún fjallar um konu sem heitir Emma.“

Í gær gruflaði ég. Hver var aftur Biblíutilvitnunin sem fíngerða konan hvíslaði í kvöldverðarboðinu í Osló. Ég átti að muna það og skyndilega, núna í morgun, kom hún:
Þú varpaðir mér í djúpið, út í mitt hafið, svo að straumurinn umkringdi mig. Allir boðar þínir og bylgjur gengu yfir mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.