Espergærde. Ræktun sterks stofns fórnarlamba

Stundum verður maður þreyttur á samtíma sínum og þeim tískusveiflum sem þeytir heilu hópunum í eina og sömu átt. Í dag sagði þekkur danskur rithöfundur sig úr stjórn danska rithöfundasambandsins því stjórnin varð ekki að óskum hennar (hennar, því rithöfundurinn sem um ræðir er og verður kona) um að senda af stað spurningarlista til allra meðlima sambandsins um hvort þeir hafi orðið fyrir „einelti, móðgunum eða valdníðslu“ á ferli sínum sem rithöfundur. Sennilega er ég bara of gamaldags til að nenna þessu eilífa fórnarlambadekri eða ræktun fórnarlamba eða hvað þetta heitir. Hvað á maður að gera við þetta? Satt að segja skil ég þetta ekki en það er auðvitað móðgun við öll sannarleg fórnarlömb. „… Á tuttugustu og fyrstu öld var ræktaður sérlegar sterkur stofn fórnarlamba,“ eiga sagnfræðingar framtíðarinnar eftir að skrifa sögubækurnar. Sennilega velta þeir vöngum yfir því hvort þetta séu ekki undarlegar andstæður í einni setningu.

Jón Kalman, rithöfundurinn, fékk riddarakross í gær mér til mikillar gleði og skemmtunar því þetta tildur er svo úr takti við persónu gamla smalans. Að ganga um með medalíur! En þegar ég heyrði af þessari heiðursviðurkenningu fyrir nokkrum dögum sá ég fyrir mér hinn 7 ára gamla Jón Stefánsson, (eins og hann hét þá) ganga niður hellulagðan stíg sem lá yfir órækt frá Safamýrarblokkunum milli Framvallarins (malarvöllur) og íþróttahúss Álftamýrarskóla. Í þessari sýn, stend ég sjálfur við mark fótboltavallarins og fylgist með honum nálgast. Hann var lítill eftir aldri, með mikið hrokkið og eldrautt hár. Hann var gífurlega fölur í framan. Jón Kalman er tveimur árum yngri en ég og mér fannst hann glaðlegur og krúttlegur strákur. Ég vissi hver hann var vegna þess að bróðir hans var bekkjarbróðir minn. En þessa mynd af skáldinu sá ég sem sagt fyrir mér og hugsaði að ef foreldrar hans væru enn á lífi yrðu þau aldeilis stolt yfir að þessi litli rauðskalli væri orðinn svo virðulegur að forsetinn hengdi medalíu á brjóst hans á sjálfum þjóðhátíðardegi Íslendinga.

ps Eins og sjá má á myndinni hér að ofan féll ég í freistni í morgun og keypti ægilega fína smáköku með kaffinu. Þessi smákaka er með hvítu kremi, hnetum, súkkulaði og karamelluhúð. Ég er veikur á kökusvellinu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.