Espergærde. Dagbókarskrifari í vanda.

Að halda úti dagbók er góð skemmtun … oftast. Helsti vandi þessa daglega dagbókarskrifara sem hér heldur nú á penna er að láta dagbókarfærslurnar endurspegla dagana sem hann skráir. Dagarnir hafa tilhneigingu til að líkjast hver öðrum, sérstaklega á þessum veirutímum þar sem samskipti, að minnsta kosti hér í Danmörku, eru takmörkunum háð. Endurtekningin er því óhjákvæmileg þótt ég reyni af öllum mætti að forðast hana.

Ég minnist á þetta hér þar sem síðustu vikur finnst mér ég hafa verið sérstaklega óupplagður og í sífellu velti ég fyrir mér hvað veldur þessum dommaraskap. Orðavalið „að velta fyrir sér“ er ekki nákvæmt hér því ég hreinlega grufla í hugskoti mínu, en þangað er leiðin stundum torfær. Ég hef komist að því að mig vantar það sem kallast á útlensku „inspiration“ eða eitthvað sem vekur andann og lyftir. Innblástur heitir það. Þessar vikurnar leita ég eftir andargift í bókum og öðru lesefni þar sem ég hef ekki verið í sambandi við svo marga sem með persónu sinni, skemmtilegheitum og gáfum ná að hrífa mig og blása í mig krafti. En ekki heldur í lesefninu hefur mér ekki tekist að fá þann innblástur sem ég að jafnaði sæki í lestur.

Í tilefni af þessu hef ég ákveðið að helga mig þýðingarstörfum næstu daga. Hætta að reyna að skrifa þær bækur sem ég vinn að og einbeita mér að handavinnunni … að þýða.

ps. Það eru margar veislurnar sem ég sæki þessa dagana; fermingarveislur og stúdentaveislur. Á þessum samkomum lendir maður oft á tali við einstaklinga sem maður þekkir ekki svo vel og þá er ég undantekningarlaust spurður að því við hvað ég starfi. Og þá lendi ég í vanda. Mér finnst alls ekki ég geti sagt að ég sé rithöfundur, þótt ég hafi nú skrifað tvær bækur. Í mínum huga get ég ekki réttlætt fyrir sjálfum mér að það sé fullt starf. Mér finnst það fullt starf hjá öðrum sem skrifa bækur en þótt ég skrifi margar bækur get ég aldrei titlað mig sem rithöfund. Og þýðandi er mjög ónákvæmt þar sem ég nota í mesta lagi þriðjung af vinnutíma mínum til að þýða. Þessi samtöl við ókunnuga um við hvað ég starfa eru því meira en lítið vandræðaleg. Mér tekst þó stundum að stynja upp að ég hafi skrifað tvær bækur. Ekki að ég blygðist mín en ég get bara ekki látið þetta dútl mitt heita starf.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.