Espergærde. Hin áköfu samskipti

Ég held áfram að hlaupa. Langhlaup kalla ég þetta – þótt sumir hæðast að því – því ég hleyp fimm kílómetra eða meira. Í gær hljóp ég 7 kílómetra og lá leiðin eftir Strandvejen og framhjá Il Divino, ítalska kaffihúsinu hér í bænum. Það er heitt í Danmörku þessa daga. Sólin skín og hitamælar bæjarins sýndu 28 gráður þegar ég mjakaðist eftir götunum á hlaupum mínum. Mér finnst aldrei skemmtilegt að hlaupa og ég lem mig áfram til að reyna að slá fyrri hraðamet. Ég get vel sagt að ég þjáist á meðan hlaupinu stendur en ég held að það sé fremur andleg en líkamleg þjáning því mér leiðist svo.

En á hlaupum mínum síðdegis í gær, þegar ég nálgaðist Il Divino veitingastaðinn, tók ég eftir að hvert útiborð staðarins var setið. Gestir kaffihússins sátu á stéttinni fyrir framan veitingasöluna og sólin skein á þá á meðan þeir drukku sitt rósavín eða svolgruðu í sig ítölskan bjór. Ég bjó mig undir að taka lítinn sveig framhjá veitingaborðunum þegar ég heyrði skyndilegan skarkala; ljóshærð kona spratt á fætur í þvílíku fáti að stólinn sem hún hafði setið á datt í stéttina með miklum látum og hvítvínsglas sem hún hafði lagt óvarlega á borið valt og rúllaði niður á stéttina og brotnaði þar í þúsund mola. Konan virtist þó ekki gefa þessu óhöppum mikinn gaum því hún stökk af stað á móti mér með opinn faðminn án þess að skeyta um brotna glasið og stólinn sem lá á miðri stétt.

Ég var fljótur að átta mig á að þarna var vinkona mín héðan úr bænum. Hún er skáldkona – að vísu er langt síðan hún gaf síðast út bók – og skrifar safaríkar sögur um samskipti kynjanna, sem sagt innileg samskipti karls og konu. Hún kom stormandi á móti mér og ég var frekar ógirnilegur eftir það sem ég kalla langhlaup; rennsveittur og lafmóður. En hún lét það ekki aftra sér og greip í mig og dró mig inn í mjúkan faðm sinn. Ég veitti þá viðspyrna sem ég gat en hún þrýsti mér að sér eins og ég væri sonur heimtur úr helju.

„Ég … eða við …. vorum einmitt að tala um þig!“ hrópaði hún í eyra mér og benti aftur fyrir sig á konu sem sat við borðið hennar; sú kona brosti sínu blíðasta og vinkaði til mín.
„Ég var að lesa bókina þína … ég var bara að klára hana … þú ert æðislegur! Þetta er æðisleg bók. Til hamingju, elskan. Æði!“
„Æ, fyrirgefðu, ég er allur rennsveittur … kjóllinn þinn …“ sagði ég og reyndi að sleppa úr faðmi konunnar.
„Það gerir ekkert til … en bókin þín … getum við ekki gert eitthvað saman? Lesið upp saman …? Eða gert eitthvað saman?“

Ég held að ég hafi algerlega stirðnað upp. Satt að segja sá ég ekki þá samkomu fyrir mér. Ég sá ekki hvernig við gætum sameinað hóp áheyrenda undir lestri á djörfum, erótískum smásögum og undarlegri barnabók. Hverjir mundu koma á slíka furðusamkomu?
„Æ, ég er á leiðinni til Íslands á sunnudaginn þannig að ég er frekar upptekinn og svo verð ég fjórar vikur á Íslandi …“
„Nei, ég á ekki við … nei, ekki núna í sumar … í haust. Ég skal skipuleggja þetta. Þú skalt ekki hafa áhyggjur …“ svo steig hún eitt skref til bak eins og til að geta séð mig í heild minni. Hún starði brosandi á mig og svo sagði hún. „Ég sá þig koma hlaupandi og sagði við vinkonu mína … sjáðu þessa svörtu eldingu … þú hleypur svo hratt …“ svo hló hún. „Yndislegt að sjá þig … mig langar svo að tala við þig, við verðum að hittast. Þú ert eini maðurinn sem ég þekki hér í bænum sem gæti skilið mig. Ég var að leggja inn handrit hjá Gyldendal. Æ, það vantar svo mikið gredduna í það forlag. Það vantar allt dræv … Þetta eru svo mikil möppudýr … Mér finnst ég setja handritið inn í svarhol og það er sama hvað ég hrópa þangað inn … allt er gleypt af þessu orkusjúgandi svarholi. Engin viðbrögð, engin ástríða … æ, getum við ekki hist og spjallað?“
„Jú, auðvitað, en ég er ekki laus fyrr en eftir Íslandsferðina,“ stundi ég. Ég skammast mín fyrir að ljúga en ég er bara ekki tilbúin í þessi áköfu samskipti … ekki þessa dagana.

.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.