Hvalfjörður. Englapiss.

Jæja. Þá er ég kominn til Íslands. Í gegnum öll sóttvarnarkerfin og eftir malbikuðum vegum Suðurlands, gegnum Kjósarskarð og alla leið til Hvalfjarðar. Ég er glaður. Logn og kvöldbjart í Hvalfirði. Það getur ekki verið betra. Og til að kóróna stórfenglegheitin fékk ég skilaboð frá heilbrigðisyfirvöldum að ég væri ekki smitaður af kórónavírusnum. Sýnin voru hrein eins og „englapiss“ eins og segir í tilkynningu frá Rakning C-19 til mín.

Nú er ég búinn að pakka upp úr töskum, búinn að fá mér hið íslenska kebab (Hlöllabáta) svo ég er líka saddur. En mér kom á óvart þegar ég opnaði ferðatöskur sem við höfðum meðferðis að í einni töskunni leyndist fullur poki af gúmmíteygjum. Kom í ljós að Sus hafði keypt þessar teygjur fyrir Davíð vegna einhverrar tilraunar sem hann ætlar að gera. Ég hafði annars hugsað mér, án þess að orða þá hugsun við neinn, að kaupa aldrei aftur teygjur. Ég ætlaði að stunda sjálfbæran teygjubúskap. Þannig er nefnilega að kjötkaupmaðurinn sem við eigum viðskipti við í Danmörku setur alltaf nokkrar teygjur utan um kjötumbúðirnar og ég hef alltaf geymt þær og smám saman komið mér upp stórgóðu teygjusafni, byggt á kjötkaupmannsteygjunum svo ég taldi að ég þyrfti aldrei aftur að kaupa teygju.

Ég heyrði einu sinni sögu af manni sem eignaðist bréfaklemmu og eftir nokkrar vangaveltur ákvað að skipta bréfaklemmunni fyrir eitt litið búnt af gúmmíteygjum. Gúmmíteygjunum skipti hann svo fyrir nokkuð góðan, ónotaðan uppþvottabursta og uppþvottaburstanum skipti hann fyrir veglegan blómavasa … svona hélt hann áfram og eftir rúmt ár hafði hann eignast Dodge Ariel árgerð 1995. Þetta hafði hann upp úr vöruskiptaferlinu sem hófst með bréfaklemmu. Yfir viðskiptum hef ég oft velt vöngum og hafði eiginlega hugsað mér að nota teygjurnar frá kaupmanninum í mín fyrstu vöruskipti og sjá hvað ég kæmist langt. Kannski tækist mér líka að eignast Dodge Ariel Station.

En nú er komið kvöld í Hvalfirði og ég er hálfferðalúinn … yo! Hér er mynd af teygjusafninu.

Gúmmíteygjur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.