Hvalfjörður. Leiðin frá Osló til Tokýó

Íslensk flatkaka með osti og morgunkaffi. Úti er íslenskur vindur. Sólin skín í gegnum gluggann og sjálfur Hvalfjörðurinn breiðir út faðm sinn, yrjóttur í strekkingnum. Ég er á Íslandi og það finn ég greinilega.

Í gærkvöldi þegar ég fór að sofa (eftir að því er virtist furðu langt ferðalag frá Danmörku) tók ég fram eina af bókunum sem ég hafði keypt fyrir ferðalagið. Ég lá undir hlýrri sænginni og hafði ekki lesið lengi þegar ég sá ástæðu til að rifja upp ferðalag til Noregs. Ég á ekki oft erindi til Osló, höfuðborgar Noregs, en þegar ég kem þangað er eins og allir heimsins rithöfundar safnist þar saman, að tilefnislausu, eða ekki af neinu greinilegu tilefni. Ég var i Osló í tvo daga fyrir þremur árum og þá hitti ég þrjá útlenda rithföunda; fyrst sænska glæpsagnahöfundinn Håkan Nesser á veitingahúsi. Við könnumst hvor við annan frá glæpasagnamessunni í Horsens. Hann hafði hreinlega álpast til Osló og vissi ekkert hvað hann átti að gera við sig og því hafði hann sest á veitingastað til að gera ferðaáætlanir. Hann er aldeilis þægilegur og áhugaverður maður hann Håkan og mér þykir leitt að bækur hans séu ekki til í íslenskri þýðingu. Í sömu ferð hitti ég hina smávöxnu Donnu Tartt í Litteraturhuset í Osló. Þar ætlaði hún að búa í eina viku og skrifa ef hún nennti. Á flugvellinum í Osló, Gardermoen, á leiðinni heim til Danmerkur, rakst ég svo á Haruki Murakami, japanska höfundinn.

Ég segi frá þessu hér þar sem ég er að lesa bók eftir Dag Solstad. Einmitt bók sem Murakami hafði keypt í enskri útgáfu á flugvallarbókabúðinni þegar ég rakst á hann. Við höfðum heilsast (við kynntumst fyrir mörgum árum á bókmenntahátíðinni í Reykjavík) og ég man að hann lyfti upp bók í miðju spjalli okkar og spurði mig hvort ég þekkti bókina eða höfundinn. Bókin heitir því furðulega nafni: Elvte roman, bog atten eftir norska höfundinn Dag Solstad. Ég svaraði honum að ég þekkti hvorki höfund né bók. Það átti eftir að breytast því skömmu síðar sátum við Dag hlið við hlið í kvöldverðarboði. Það var langt kvöld.

En í gærkvöldi hóf ég lestur á bók Dags, nákvæmlega sömu bók og Murakami hafði haldið á fyrir þremur árum í bókabúðinni á Gardermoenflugvellinum . Og mér til stórkostlegrar undrunar er bókin, sem er í danskri þýðingu, nú skreytt með eftirmála eftir sjálfan Murakami þar sem hann segir frá því að hann hafi fyrir rælni keypt skáldsöguna á flugvellinum í Osló og ákveðið að þýða hana á japönsku. Ég varð steinhissa, liggjandi í mínu góða rúmi með útsýni yfir Hvalfjörðinn mitt í íslenskri sumarnótt og átti allra síst von á að minningin frá fundinum í flugvallarbókabúðinni mundi ná í skottið á mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.