Hvalfjörður. Maðurinn með þjóðbúningahúfuna

Á göngu minni í morgun, með rusl í poka á leið til ruslagámanna við þjóðveginn, rakst ég mann sem augljóslega hafði verið í sömu erindagjörðum og ég; að henda rusli gærdagsins. Þegar maður mætir manni á jafn fáförnum vegaslóða og þessum sem við gengum báðir á – frá sumarhúsum okkar og niður að ruslagáminum – verður maður að sýna þá kurteisi að horfa í augu þess sem maður mætir og heilsa fallega. Það gerði ég. „Góðan daginn,“ sagði ég um leið og við mættumst, en mér til nokkurrar undrunar snarstansaði maðurinn og starði furðu lostinn á mig í stundarkorn áður en hann sagði: „Nei, komdu sæll og blessaður! … Þekkirðu mig ekki lengur … Björn …?“

Ég verð að viðurkenna að eftir að ég flutti til útlanda er ég orðinn ansi ómannglöggur. Ég hef verið lengi í burtu og fólk tekur breytingum á þessum árum sem hafa liðið frá því ég var tíður gestur á götum Reykjavíkur. Það hefur bæði tilhneigingu til að missa hár, grána, fitna og jafnvel eldast með árunum og þessi hnignum sem verður á mannfólkinu getur oft gert það torkennilegt.

En maðurinn, sem stóð á malarveginum við ruslagámana, hafði ansi auðþekkjanleg kringlótt gleraugu og líka sérkennilega derhúfu (sem ég tengdi ósjálfrátt við skoskan þjóðbúning), endurvakti engar minningar hjá mér; kveikti satt að segja engin ljós né hringdi neinum bjöllum. Ég kannaðist bara ekki við að hafa hitt mann með þess slags húfu áður.

„Ég sé að þú hefur gleymt mér! Ég er maðurinn sem kom á forlagið til þín með bók Camilo Jose Cela, Pascal Durte og hyski hans. Ég bauðst til að þýða hana fyrir þig.“
„Fyrirgefðu ég man hvorki eftir þér né eftir þessari heimsókn … það er svo …“
„Ég kom satt að segja tvisvar. Fyrst til að kynna bókina og þú tókst fálega í útgáfuhugmynd mína. Svo koma ég aftur til þín nokkrum mánuðum síðar þegar ég uppgötvaði að Cela hafði fengið Nóbelsverðlaunin. Ég vissi það ekki þegar ég kom í fyrsta skiptið!“
Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég átti að segja, mér fannst þetta furðulegt samtal. Ég fór að óttast að maðurinn ætti sumarhús í námunda við mig og yrði hér eftir tíður gestur hjá mér til að rifja upp kynni sín af Cela og vonlaus viðbrögð mín við tilboði hans um að þýða bókina. Ég gat ekki hugsað mér neitt skelfilegra.
„Býrðu hérna?“ hóstaði ég upp.
„Bý ég hér? Það býr enginn hér, það er ólöglegt að búa í sumarbústað. Nei, ég bý ekki hér …“
„Nei?“
„Ég er staddur hér fyrir tilviljun, gamall félagi minn er að leggja raflögn í hús hér ofar og ég skemmti honum á meðan …“

Við kvöddumst. Ég sá að við mundum ekki eiga gjöfult samtal um Camilo Jose Cela því ég veit ekkert um skáldið annað en að Kristinn R. Ólafsson þýddi Pascal Duarte og hyski hans. Sennilega nokkrum árum eftir að maðurinn með skosku þjóðbúningahúfuna heimsótti mig á forlagið með sitt ómótstæðilega tilboð.

Í gær fór ég í innkaupaleiðangur til Akraness. Ísskápurinn hjá mér svo að segja tómur en í stað þess að ganga rakleitt inn í matvöruverslun og sinna mínum brýnu erindum lá leið mín inn í Eymundsson á Akranesi. Mér var strax mætt af mikilli vinsemd. Gráhærð kona með gleraugu kom ægilega brosmild á móti mér og spurði hvort hún geti „aðstoðað“ mig.
„Nei, takk, ég er bara að kíkja á úrvalið,“ sagði ég.
„Já, og þú kannt aldeilis að meta bækur!“ sagði þá brosmilda konan. Ég vissi ekki hvernig ég átti að skilja þessa vingjarnlegu kveðju svo ég hummaði eitthvað óskiljanlegt.

Ég sá að bókin Þögli sjúklingurinn, glæpasaga ársins, sem ég hef spáð og spái enn svo mikilli sigurgöngu á Íslandi, hefur þegar komið sér fyrir á toppi metsölulistans í Akranesbúðinni. Ég ætlaði að taka mynd af stöðunni á metsölulistanum og senda útgefandanum til að gleðja hann, en brosmilda konan fylgdi mér eins og skuggi svo ég kunni ekki við að vekja athygli á mér með því að munda símanum að hillunni með metsölubókunum. (Síminn minn er búinn innbyggðri myndavél!)

En hvað um það. Ég hef það gott í sveitinni! Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.