Ups. Hvað gerist nú? Storytell kaupir 70% af Forlaginu. Halldór Guðmundsson stjórnarformaður segir að þetta sé skref til framtíðar. Það getur vel verið rétt. Hingað til hefur Forlagið þráast við að taka þátt í þróun bókabransans í átt til meiri stafrænnar útgáfu og hefur gert sitt til að hamla raf- og hljóðbókavæðingu bókmenntabransans. En síðustu ár hafa lesendur leitað meira og meira til hljóðbóka til að fá sitt bókmenntafix. Á Norðurlöndunum er stór hluti tekna bæði höfunda og forlaga vegna streymissölu raf- og hljóðbóka. Forlagið hefur hins vegar keyrt með handbremsuna þegar kemur að dreifingu hinna rafrænu bóka.
Með kaupum Storytell á Forlaginu má kannski segja að gamall draumur Máls og menningar að verða „miðlunarfyrirtæki“ rætist. Einu sinni stofnaði Mál og menning og Vaka fyrirtækið Edda – miðlun og var markmiðið að reyna fyrir sér með útgáfu á öðru en bara prentuðum bókum – þess vegna “miðlun” í nafninu. En fljótlega var miðlunarhluti Eddunafnsins fellt út og eftir stóð og … féll forlagið Edda.
Ég hef alltaf sagt að Storytell sé öflugt fyrirtæki, kraftmikið og stefnufast. Ég hef líka sagt að það hafi járnkrumlu í silkihönskum og nú held ég að Bjartur og öll önnur íslensk forlög munu fá að finna fyrir járnkrumlunni þegar kemur að útgáfu og dreifingu hljóð- og rafbóka.
Það verður líka forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum höfunda við þessum kaupum. Hingað til hefur sú þjóðsaga gengið höfunda á milli að Storytell sé handhafi hins illa, þeirra markmið er að hlunnfara höfunda. Það er svo sem ekki rétt, Storytell stundar viðskipti á þeim forsendum að fá eins mikið fé út úr viðskiptum sínum og mögulegt er. Þannig eru víst flest fyrirtæki rekin. Nú er það Storytell sem hefur tögl og haldir í íslenskum bókabransa. Samningsstaða höfunda hefur ekki batnað með þessum nýju viðskiptum. Höfundar sem vilja lifa af þurfa að beygja sig undir vald Storytell. Nú eru nýir tímar í útgáfu, vægi hljóðbóka, rafbóka og streymis vex. Þar verður, innan mjög margra ára, aðaluppsprettulind tekna höfunda og forlaga.
Eru þetta góð tíðindi? Ég veit ekki hvort þetta séu góð tíðindi en sennilega var óhjákvæmilegt að Forlagið breytti um stefnu í starfsemi sinni. Það hefur verið þungt yfir og það hefur augljóslega vantað vítamín í Forlagið. Rekstur Forlagsins virtist standa á krossgötum og sennilega nauðsynlegt að grípa til einhverra ráðstafana til að styrkja Forlagið svo það lognaðist ekki bara út af eins og syfjaður risi.
2 athugasemdir við “Hvalfjörður. Loksins, Edda – miðlun.”