Hvalfjörður. Gullkrónur sem gjaldmiðill

Enn á ný vaknar maður við sólskin og fuglasöng hér í Hvalfirðinum. Það er eins og hvorki fuglarnir geti hætt að syngja né sólin hætt að skína. Nú siglir meira að segja seglskúta undir hvítu segli inn fjörðinn til að gera myndina enn fallegri og ég á leið inn til Reykjavíkur. Heilsdagsferð til Reykjavíkur. Listinn yfir hitt fólk verður spennandi á morgun.

Annars var mikið fár í gær í sveitakyrrðinni. Síminn hringdi ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar heldur oftar en þrisvar. Og síminn minn hringir aldrei oftar en einu sinni á dag. Stóra Stoyrtel-málið fékk blóðið til að þjóta um æðar sumra. Kaup Storytel á Forlaginu eru auðvitað tíðindi sem fær blóð til að streyma sjóðandi heitt í gegnum hjartavöðvann.

Allt í einu eru eigendur að stærsta forlagi landsins orðnir útlendir og til lengri tíma eru þeir ekki sérlega áhugasamir um varðveislu íslenskrar menningar eða halda fána íslenskra bókmennta á lofti. Storytel er peningafyrirtæki og þeirra gjaldmiðill er ekki hið svokallaða menningarkapital, heldur beinharðar gullkrónur. Því er auðvitað mikill missir af Máli og menningu sem aðaleiganda því þeirra eina markmið, til langs og skamms tíma eru íslenskar bókmenntir. Þótt eigandinn, Mál og menning, hafi kannski ekki verið áberandi og virkur eigandi var markmið félagsins skýrt: íslenskar bókmenntir og bókmenntalíf í forgang.

ps. Og tvennt mikilvægt í lokin: kláraði bók Dag Solstad í gær og ég er stórhrifinn. Stórhrifinn. Það er langt síðan ég hef verið jafn glaður yfir skáldsögu. Hitt atriðið er ekki síður mikilvægt. Ég setti nýtt hlaupamet í gær. Minn besti tími á fimm kílómetrum á hinu nýja hlaupatímabili. Nú hljóp ég á 5:09 pr. kílómeter. Ég veit að þetta er ekki sérlega gott hraðamet, og langt frá þeim hraða sem ég hljóp fyrir ökklameiðslin, en ég bæti mig í hverri viku. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.