Akureyri. Söngleikur í skúffu.

Það er þrennt sem stendur upp úr í dag, en við hófum hringferð okkar um Ísland um hádegisbil. Fyrsti áfangastaðurinn var í huga okkar Akureyri. Að vísu gerðum við aksturshlé á Hvammstanga til að borða nestið okkar. Það borðuðum við í skjóli við selamiðstöðina niður við sjó. En vindurinn var hressilegur á Hvammstanga í dag.

En þar sem nú er komið kvöld og ég hef ekki tíma til að skrifa ætla ég að minnast á þrjú atriði í úr ferðinni.

  1. Ég keyrði ekki alla leið til Akureyrar, þ.e.a.s. ég sat ekki undir stýri alla leið. Ég hef nefnilega ekki getað sofið almennilega síðustu tvær nætur og hausinn á mér hefur verið fullur af kvefi. Þegar við nálguðumst Hvammstanga fór mig að sifja svo mjög að ég bað Sus að keyra. Þetta er í fyrsta skipti á ferli mínum sem bílstjóri að ég er sigraður af svefni á miðri leið.
  2. Á Akureyri gerðum við stutt stopp í húsi sem amma mín á Akureyri átti. Mig langaði að sjá húsið aftur því þangað kom ég reglulega sem barn. En nú er aldeilis búið að gera húsið fallega upp. Og einmitt þegar ég var að virða fyrir mér húsið og allt fallega handverkið sagði konan sem nú býr í húsinu að hún hefði vitað að ég væri á leiðinni til Akureyrar því „hún læsi pistlana“ mína. Ég var undrandi því ekki grunaði mig að ég mundi finna lesanda Kaktussins í húsi ömmu minnar. Ég varð eiginlega hálffeiminn.
  3. Í airBnB húsinu sem við leigjum í nótt eru nokkrar bækur. Þar á meðal bókin 1001 bók sem þú verður að lesa áður en þú deyrð. Ég fletti bókinni í forvitni og athugaði meðal annars hvaða íslensku bækur væru þarna á meðal þessara 1001 bókar sem maður verður að hafa lesið fyrir andlátið. Ég fann eina, já, bara eina íslenska bók og hvaða bók skyldi það vera? Sjálfstætt fólk, HKL!
1001 og ein bók you must read before you die

ps. Ég rakst á Rúnka busa á matsölustað hér í bænum. Hann hef ég ekki hitt í marga áratugi en við vorum samtímis í menntaskóla.. Það kom mér á óvart að hann skyldi spyrja mig, eftir að við höfðum heilsast og skipst á kurteisisorðum, hvort ég nennti að lesa handrit að söngleik sem hann skrifaði þegar hann var 15-16 ára. Ég var nógu harður að ég neitaði honum um það. Ég gat ekki hugsað mér að lesa svo gamlan söngleik sem hefur legið í skúffu í áratugi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.