Sveit við Húsavík. Svar við bréfi

Ég hef verið á ferð um sveitirnar í kringum Mývatn, kom við á Húsavík og hitti þar óvænt Húbert Nóa og konu hans, ég hitti bróður minn og Möggu. Aðra sem ég hitti í dag þekkti ég ekki. Ég kannaðist þó við einn mann í hinni nýju vatnslaug við Húsavík, Geosea, sem er ansi glæsileg, en ég kom honum þó ekki fyrir mig. Velti þó fyrir mér hvort maðurinn gæti hafa verið Eiríkur Stephensen, maðurinn sem skrifaði bókina Boðun Guðmundar. Ég er ekki viss.

En ég fékk svo í morgun bréf þar sem bréfritari er heldur óánægður með að í heiminum finnist ritröðin sem ég minntist á í gær 1001 bók sem þú verður að lesa áður en þú deyrð.

„Áður en þú deyrð?“ segir bréfritari og heldur áfram, „áttu bara að lesa þær og engar aðrar? Og afhverju þessar bækur, geturðu ávarpað dauðann með þeim, veita þær eitthvert forskot í myrkrinu? Á skáldskapurinn þá fyrst og síðast að undirbúa okkur fyrir dauðann en ekki fá okkur til að lifa betur?“

Ég held að bréfritari sé að rugla þessari bók við bók í öðrum bókaflokki sem ber nafnið: 1001 bók sem þú verður að lesa rétt áður en þú deyrð. Sú ritröð er helguð bókum og öðru nýtilegu sem maður getur tekið með sér inn í eilífðina. Bókin 1001 bók sem þú verður að lesa rétt áður en þú deyrð var líka í bókahillunni í bústaðnum sem ég leigði á Akureyri. Þar eru nefndar fjórar bækur eftir Íslendinga: Konur (Women), S.B. Gudmundsson, Kjötbærinn (Meattown) K. Eiríksdóttir, Englar alheimsins (Angels of the Universe), E.M. Gudmundsson og Tröllakirkjan, (Trolls’ Cathedral) O. Gunnarsson.

En í kvöld sef ég í tjaldi, úti á túni langt upp í sveit. Ég held satt að segja að þetta sé sveitin hans Sigfúsar Bjartmarssonar. Hér er mynd af tjaldinu. Góða nótt.

Tjaldbúðirnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.