Það var köld nóttin í tjaldinu í Þingeyjarsýslunni og ég átti bæði erfitt með að festa svefn og sofa vært. Mér finnst tjaldkuldi fremur ónotalegur en eftir langa dvöl undir sænginni tókst mér að fá hita í kroppinn. Á meðan ég hafði barðist við líkamskuldann hafði ég yljað mér við að lesa bók sem ég keypti í bókabúð á Húsavík. Þetta var bókin Litla land eftir Gaél Faye. Eiginlega var það fyrst og fremst hönnun bókarinnar sem fékk mig til að kaupa hana. Það er vandað til prentverksins og þar sér maður að María Rán, útgefandinn, hefur lært af dvöl sinni hjá Crymogeu og Kristjáni B. Fín prenthönnun. Og ég sé að hún notar hönnuðinn Snæfríð Þorsteins, sem hefur unnið bókverk fyrir Crymogeu. Bókin er flott (ég veit ekki hvort mér þyki textinn skemmtilegur eða góður) og ég er ánægður með að Angúsúra skuli nota orku í að vanda hönnun bóka sinna.

Ég keypti líka bók eftir Agöthu Christie. Ég hef svo oft reynt að byrja a bókum eftir glæpadrottninguna en alltaf gefist upp. Nú ætla ég að lesa hana til að læra.
Ég kom í sveitina hans Þórbergs í kvöld eftir langa ökuferð frá Þingeyjarsýslum og hér ætla að gista í nótt. Ég hef verið að reyna að finna fyrir anda Þórbergs, anda að mér Suðursveitarloftinu, en án árangurs. Kannski er ég bara þreyttur eftir allan aksturinn.