Hvalfjörður. Kyrralíf og félagslegar skyldur

Ég tók ljósmynd í dag af blómvendi sem Sus týndi. Mér fannst myndin lýsa deginum, kyrralífsmynd. En þegar ég lít um öxl, og skoða framvindu dagsins, sé ég að varla hefur verið kyrr stund. Það liggur á að bera olíu á tréverkið á húsinu hér í Hvalfirði áður en fer að rigna. (Veðursérfræðingarnir lofa regni næstu daga) Húsið er trélistaklætt og tréfermetrarnir sem þarf að vernda eru ófáir. Ég hentist því til Akraness í morgun til að redda réttu efni í réttum lit til að bera á tréð. Mér tókst líka að finna skrúfjárn í réttri stærð því ég þurfti líka að skrúfa ýmislegt.

Og morguninn fór í þetta stúss ásamt matarinnkaupum því hingað koma gestir bæði á morgun og á sunnudag. Ég bar líka á tréverkið svona í tilraunaskyni til að sjá hvort litur og efni væri rétt. Til að athuga hvaða aðferðir gæfu bestan árangur …

Ég hljóp líka svokallað langhlaup og setti í hlaupinu samtals þrjú met samkvæmt Garmin-úrinu sem ég hef á úlnliðnum: Hraðasti kílómetri í sögu minni sem hlaupari með Garmin-úr (en sú saga er bara skráð frá því í maí eða júní í ár). Hraðasta míla og aldrei fyrr hef ég hlaupið fimm kílómetra jafn hratt skv. Garmin. Yo!

Ég hef líka lesið, þó ekki sérlega mikið. Furðulegt er það að þegar maður er í fríi hefur maður ekkert sérstaklega mikinn tíma fyrir sjálfan sig. Maður er eilíft að sinna félagslegu skyldum sínum. Nú er ég samt að verða búinn með bókina Litla land sem mér þykir alveg þokkaleg. Textinn finnst mér ekkert sérlega safamikill en sagan heldur mér nokkurn veginn. Ég er farinn að hlakka til að komast aftur í Dag Solstad.

Ég er ekki sérlega andríkur í dag, sorry. Það er þessi kyrrlífstilfinning sem lamar heilann á mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.