Hvalfjörður. Æsingur dagsins

Ég hef eiginlega gott af því að æsa mig smávegis yfir einhverju þessa dagana. Dagarnir líða áfram í ró og jafnvægi; ég les, geri æfingar, hleyp, bý til mat, fer í göngutúr, mála húsið, fer í lautarferð (í Hvalfirði eru nefnilega margir fallegir fossar, fallegar gönguleiðir og því er svo kjörið að borða hádegismat úti á túni undir einhverri fjallshlíð með fossanið sem undirleik.) Ég vinn ekki í sumarfríinu og því líður lífið áfram með kaffibolla í hendi.

En svo kom póstur til mín í morgun með mynd af grein sem birtist í Morgunblaðinu og höfundur greinarinnar er enginn annar en minn góði vinur Maggi Guð. Þegar ég hafði lesið grein blaðamannsins gat ég ekki annað en verið greinarhöfundi hræðilega ósammála. Í fréttinni skrifaði Maggi nefnilega um hversu illa rithöfundar hefðu farið út úr veirufárinu. Ekki bara að bóksala hefði minnkað heldur hefði upplestrartækifærum (sem stundum er greitt fyrir) líka fækkað. Það er rétt. Bóksala minnkaði eitthvað og tækifærum til upplesturs hefur líka fækkað (þau eru nú ekki mörg á þessum tíma (mars-maí) á Íslandi). Greinin er víst meira eða minna samantekt á einhverri útlendri skýrslu og í niðurstöðu kallar greinarhöfundur (eða skýrslan) eftir einhverjum sérstökum hjálparpakka, löggjöf til að bjarga rithöfundum úr þessari kreppu. Ég gat ekki annað en fussað. Í mínum huga eru það ekki rithöfundar sem hafa farið verst út úr þessu kórónafári, langt frá því. Flestir eru meira eða minna opinberir starfsmenn. Rithöfundar – í hvaða árferði sem er – sem ekki er á rithöfundalaunum eða eru metsöluhöfundur eða selja bækur sínar til útlanda í nokkrum mæli, eiga ekki minnstu möguleika á að þrauka eingöngu á rithöfundalaunum þótt engin vírus væri að herja á heiminn. Höfundur sem selur 2000 eintök af bókum sínum einu sinni á ári (sem er fyrirtaks sala) er með tekjur langt undir fátæktarmörkum.

Sennilega er ég svo liberal í hugsun að ég á erfitt með að setja mig inn í þá tilhneigingu margra að líta svo á að það sé bæði eðlilegt og sjálfsögð réttindi að fá „hjálparpakka“ ef illa gengur annað hvort frá ríki eða einhverjum öðrum í stað þess að bera ábyrgð á sjálfum sér. Er ekki hægt að ætlast til þess að maður bjargi sér ef manni eru ekki allar bjargir bannaðar?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.