Hvalfjörður. Ys og þys út af engu?

Tveir fiskar – ungfiskar – komu syndandi og mættu af tilviljun sér mun eldri fisk sem synti í andstæða átt. Hann kinkaði kolli til ungfiskanna og sagði: „Góðan daginn, félagar. Hvernig er vatnið?“
Ungfiskarnir tveir héldu sundi sínu áfram en svo sneri annar þeirra sér að hinum og sagði: „Hvað í fjáranum er vatn?“

Ég segi frá þessu hér af tvennu tilefni en ég nefni bara annað tilefnið að þessu sinni. Hér í Hvalfirðinum hefur rignt hressilega í dag. Allt er undirlagt regnvatni; pallur, bekkir, tré og grös. Hin ástæða þess að ég segi frá fiskunum þremur kemur kannski síðar hér á þessum sama stað.

Í dag varði ég þó ekki deginum í regnvotri sveitinni heldur þurfti ég að sinna erindum rithöfundar í Reykjavík; höfuðstaðnum. Ég sat á virðulegri skrifstofu Forlagsins seinnipart dags og einbeitti mér að því að leysa það verkefni sem mér hafði verið falið að inna af hendi. Á skrifstofu Forlagsins var ansi rólegt. Mig grunar að megnið af starfsfólkinu hafi verið í sumarfríi í dag. Á skrifstofu bókaforlagsins var sérstaklega mollulegt, loftið bærðist varla en yfir skrifstofunni sveif þó andi mikillar einbeitingar. Ég hitti fjóra starfsmenn og allir voru þeir svo djúpt sokknir í vinnu að mér fannst ég skynja allt að því andaktugt andrúmsloft. Eiginlega þótt mér eðlilegast að hvísla þegar ég ávarpaði starfsmenn sem ég átti erindi við. Ég skynjaði ekki nein sænsk áhrif þennan stutta vinnudag á hálfútlendu forlagi, ekkert minnti á hina nýju eigendur og það var eins og allur ysinn og þysinn í síðustu viku hefði verið út af engu.

Að lokinni vinnu fór ég með Sus og Davíð á Kaffi Vest. Þar hitti ég bæði Kristínu Ómarsdóttur, Harald Jónsson (hinn nýbakaða föður) og Pál Valsson.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.