Hvalfjörður. Guð, dýraskítur og kolvilltur maður.

Ef ég vakna um miðja nótt hér í sveitinni hef ég þann vana að fara á fætur og ganga út að glugga til að athuga hvort ég sé einhver dýr á ferli fyrir utan húsið. Ég er þá að hugsa um ferfætlinga; kindur eða refi. Ég hef nefnilega stundum rekist á dýraskít í náttúrunni við húsið en aldrei hef ég séð neitt lifandi á hreyfingu annað en fugla. Ég álykta að hér um kring séu ferfætlingar á ferli vegna þessa dýraskíts. Þannig hef ég lært að hugsa. En maður gæti kannski dregið aðrar ályktanir.

Ég segi frá þessu hér þar sem ég heyrði sögu af tveimur mönnum sem sátu á bar í Alaska. Annar var trúlaus – það sem menn kalla atheisti – en hinn var heitur Guðstrúarmaður og þeir ræddu um tilvist Guðs af þeim innileik sem menn gera eftir að hafa drukkið nokkuð magn af áfengi.

Og trúleysinginn sagði: „Sjáðu nú til, ég hef enga sérstaka ástæðu til að trúa ekki á Guð. Ég velti trúnni oft fyrir mér og hef gert tilraunir með að biðja til Guðs og athuga hvort hann heyri til mín.
Í óveðrinu um daginn villtist ég. Ég gat ekki séð handa minna skil og var orðinn kolvilltur. Það var 45 stiga frost og ef ég fyndi ekki skjól beið mín ekkert annað en dauðinn. Ég lagðist því á kné og bað til Guðs. Ég hrópaði upp í óveðrið: ‘Guð, ef þú ert til, ég er villtur í þessu mikla fárviðri og ég dey ef þú réttir mér ekki hjálparhönd!’“

Hinn heittrúaði lagði bjórglasið frá sér og leit undrandi á trúleysingjann. „Þú hlýtur þá að trúa á Guð,“ sagði hann. „Þú ert á lífi og situr hérna hjá mér.“

Trúleysinginn ranghvolfdi í sér augunum eins og sá heittrúaði væri algjör fáviti. „Nei, það einasta sem gerist var að tveir eskimóar áttu leið hjá og hjálpuðu mér aftur heim og í skjól.“

Já. Þetta var nú sagan um hvernig maður túlkar atvik. Kannski dýraskíturinn sé ekki merki um að dýr séu á ferðinni í kringum húsið mitt að nóttu. Maður velur víst hvernig maður hugsar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.