Hvalfjörður. Það sem ég ætla ekki að segja.

Í gær fór ég kvöldferð til Reykjavíkur til að stunda samkvæmislífið. Ég hafði mælt mér mót við nokkra félaga mína, ég held meira að segja að þessi hópur hafi fengið nafn og verið kallaður klíka. Ég veit ekki hvort mér finnst nafnið á klíkunni passa við það sem raunverulega gerist í samskiptum þessara félaga minna þegar þeir hitta hvern annan.

Ég lagði bílnum sem ég hef til afnota við Klappastíg eftir að hafa keyrt greiðlega frá Hvalfirði og gekk nokkuð röskum skrefum upp á einskonar ölstofu sem heitir Veður. Ég hafði í samtölum fyrr um daginn viljandi viðurkennt fyrir félögum mínum sem ætluðu að hitta mig á þessari knæpu að ég vissi ekki hvar staðurinn var í Reykjavík. Ég hafði hreinlega aldrei fyrr heyrt hann nefndan. Það þótti þeim fyndið og gerðu grín að því hvað ég væri illa að mér um helstu kennileiti Reykjavíkur. Mér var engin stríðni í því. Þegar ég smokraði mér inn á skuggsæla veitingastofuna – eftir að hafa heilsað fólki á vegi mínum upp Klappastíg – og virt fyrir mér hina sitjandi gesti, tók ég eftir að ég þekkti nánast hvert andlit. Sem æfður dagbókarskrifari hugsaði ég ósjálfrátt að ég gæti í næstu dagbókarfærslu gert lista yfir það fólk sem ég hitti á ferð minni um höfuðstaðinn og hnýtt vel völdum athugasemdum fyrir aftan hverja persónu sem ég tilgreindi.

Ég hafði ekki verið lengi í félagsskap vina minna þegar ég áttaði mig á að þeir voru líka vakandi yfir hvað þeir og þeirra ógætilegu upphrópanir væri ríkuleg uppspretta góðra dagbókarfærslna fyrir mig og það er þess vegna að ég ákvað að láta þessa kvöldbæjarferð ekki vera efni færslu dagsins.

Í stað þess ætla ég að nefna að eftir töluvert strembnar leikfimiæfingar sem ég stunda núorðið annan hvern morgun tók ég mér skóflu í hönd og arkaði út á göngustíginn fyrir utan húsið hér í Hvalfirðinum og hóf að koma fyrir útilömpum sem eru hugsaðir sem leiðarljós fyrir kvöldgesti. Það tók mig sennilega um það bil fjóra klukkutíma að grafa þrjá lampa niður, sökkva rafmangsleiðslunum á milli þeirra 20 cm niður í jörðina, fela jarðraskið vegna framkvæmdanna og finna villt blóm úti á melunum til að planta við innkeyrsluna þar sem ég hafði staðsett lampana.

Þetta voru nú afrek dagsins og ætli ég leyfi mér ekki nú – klukkan er að verða hálf fimm – að fá mér einn bjór og drekka hann um leið og les allra síðustu síðurnar í bókinni Litla land eftir Gaël Faye. Ég á nákvæmleg 7 blaðsíður eftir. Þetta er hreint ágæt bók og segir frá hörmungum fólsins í Rúanda og Búrúndí sem eru ríki í Afríku.

Næst sný ég mér að bók tvö í þríeik Dag Solstad um sögupersónuna Bjørn Hansen.

ps. Ég tók eftir að einn þeirra sem ég hitti í gær gekk með nýja bók eftir Javier Marías, Berta Isla. Umræddur maður virtist brenna í skinninu að komast í félagsskap bókarinnar. Ég hef aldrei náð sambandi við þennan ágæta spænska höfund.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.