Hvalfjörður. Landsliðsbúningur Tíbet.

Ég var kominn niður á þjóðveg 47, Hvalfjarðarveg, rétt rúmlega níu í morgun klæddur knattspyrnulandsliðsbúningi Tíbet (rauðar og bláar rendur). Langhlaupin hófust því óvenjusnemma í dag. Það voru ekki kjöraðstæður til hlaups, sterkur mótvindur og regn aðra leiðina og sterkur meðvindur og regn á leiðinni til baka. Mér þótti ekki gott að hlaupa í rokinu og varð sí og æ hugsað til Söndru minnar sem hleypur í dag Laugavegshlaupið. Fimmtíu og eitthvað kílómetrar í roki og rigningu hljómar skelfilega í mín eyru.

En mér tókst þó að hlaupa mitt langhlaup en sló engin met í dag. í nótt var ég með hugann við mosapúðann sem ég hafði stungið upp hér í vegakanti til að leggja í náttúruna í kringum húsið. Púðinn var níðþungur og en mér tókst að flytja hann hingað á bílnum. Í nótt skipulagði ég hvernig ég ætlaði að fella púðann betur inn í náttúruna með því að bera steina í kringum hann. Það gerði ég í landsliðsbúningi Tíbet og í stuttbuxum merktum fótboltaliði Barcelona eftir hlaupið. Ég var ánægður með árangurinn.

Landsliðsbúningur Tíbet og buxur merktar Barcelona.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.