Hér í Hvalfirðinum hefur verið gestkvæmt í dag. Ég hafði varla náð að klára langhlaup dagsins – upp hina bröttu brekku, og ljúka við að skola hlauparykið af mér í sturtunni – þegar fyrsti gestur dagsins var mættur á gamla jeppanum sínum. Stjórnarformaður Forlagsins brunaði í Hvalfjörðinn til að athuga hvort höfundur hans sæti við skriftir og skilaði almennilegu dagsverki. Það er auðvitað happafengur fyrir mig, og okkur, að fá skemmtilegan gest sem getur spjallað um stöðu og horfur í því hjartans máli sem útgáfa bókmennta er fyrir mig.
Auðvitað heyrði ég margar góðar sögur um rekstur bókaforlaga, samskipti við höfunda, skipulagningu bókmenntaviðburða en þær ætla ég ekki að endurtaka hér en ég fór að velta fyrir mér eftir þessar samræður að á svokölluðum vinstri væng stjórnmálanna – þeim armi sem hefur yfirleitt meiri menningaráhuga – er löng hefð fyrir því að vanmeta hve erfitt og áhættusamt það er að vinna að nýjungum sem gagnast landsmönnum. Um leið viðurkennir þessi hópur ekki mikilvægi þess að þeir sem taka slíka áhættu (að vinna að gagnlegum nýjungum) fái það á einhvern hátt metið eða launað.
Um þetta hugsaði ég. Ég held til dæmis að miðlun Storytel á bókmenntum eigi eftir að gagnast bæði áhugamönnum um bóklestur, svokölluðum lesendum, og líka rithöfundum í útbreiðslu þeirra bókmennta sem þeir hafa skapað. En Storytel er bara eitt lítið dæmi um þá hefð þeirra sem halla sér til vinstri í stjórnmálum að leggjast gegn hinum gagnlegu nýungum sem af og til koma fram í stað þess að hvetja þá sem standa að baki þeim og launa þá áhættu sem frumkvöðlarnir taka. En nóg um það.
Og ekki löngu eftir að reykormurinn, sem hlykkjaðist á eftir gamla jeppanum þegar stjórnarformaðurinn keyrði niður malarbrekkuna, hafði lyppast niður kom blár Skoda station-bíll spólandi upp sömu brekku fullur af fólki og nýjum, góðum gestum.