Hvalfjöður. Gult spjald.

Ég las í gær ritdóm um bók sem ritdómari taldi að ætti að hlotnast sá heiður að vera kölluð klassík. Bókin er endurminningarbók, en ekki dæmigerð sem slík heldur eru þetta svokallaðir minningablossar, straumur minningablossa. Bókin er byggð upp á stuttum köflum sem allir hefjast á „ég man“ og svo fylgir minningarblossi eins og þessi: „Ég man eftir Coke með kirsuberjarbragði.“ eða „Ég man eftir minni fyrstu kynferðislegu reynslu í neðanjarðarlest. Það var einhver náungi (ég þorði ekki að horfa á hann) fékk standpínu og byrjaði að nudda sér upp við mig. Ég varð svakalega graður og þegar ég kom á endastöð ferðarinnar flýtti ég mér út úr lestinni og beinustu leið heim. Þar reyndi ég að mála olíumálverk með því að nota tippið á mér sem pensil.“

Fleiri rithöfundar hafa notað þetta form til að skrifa endurminningar sínar. Paul Auster hefur beitt þessari aðferð og líka George Perec. Sjálfur hef ég, án þess að þekkja bókina sem hér um ræðir skrifa samskonar minningarblossa hér á Kaktus fyrir nokkrum mánuðum. Þar skrifaði ég meðal annars:
„Ég man …
… hádegisfréttir í Ríkisútvarpinu. Rödd Jóns Múla: „Franco, einræðisherra Spánar…“
… Listaskáldin vondu fylltu Háskólabíó.
… Rauði krossinn afhendir bágstöddum börnum frá Vestmannaeyjum sælgæti eftir gos í Heimaey. Ég mætti í röðina og þóttist vera frá Vestmannaeyjum.“

Í morgun fékk ég tölvubréf þegar ég var að gera leikfimiæfingar. Ég var sérlega illa upplagður og átti erfitt með æfingarnar þar sem ég fór seint að sofa í gær eftir að hafa keyrt til Keflavíkur í gærkvöldi til að ná í Núma. Númi lenti rétt undir miðnætti og svo keyrðum til baka, spjölluðum, fengum okkur að borða svo svefntíminn hjá mér var af ansi skornum skammti. En í tölvubréfinu var annars gömul minningarúrklippa af fótboltaleik sem Bjartur átti við Eddu. Og því kom þessi minning upp: „Ég man … þegar við spiluðum fótboltaleik við Eddu og Hermann Valsson var dómari leiksins. Ég hafði ekki spilað nema í þrjátíu sekúndur þegar ég hafði fengið gult spjald vegna léttvægs brots á Ólafi Jóhann Ólafssyni – sem þá var liðsmaður Eddu – en hann var nógu klókur til að kveinka sér ógurlega undan atganginum í mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.