27. júlí nálgast hratt. Þá fer ég aftur til Danmerkur. Ég gæti vel hugsað mér að vera hér lengur. Þetta er minn hjartastaður. En 30. júlí nálgast líka hratt. Það er fimmtudagur og þá verður bók Steinunnar Sigurðardóttur, Hjartastaður endurútgefin á Íslandi.
Um þetta fékk ég rétt í þessu tilkynningu frá forlaginu mínu; Forlaginu. Og af hverju skyldi þessi meðalgóða skáldsaga vera endurútgefin nú 25 árum eftir að hún kom út í fyrsta skipti? Forlagið vill telja mér trú um í tilkynningu sinni að það sé vegna þeirra sérstöku aðstæðna „að Íslendingar hafa í bili endurheimt landið sitt úr „greipum“ erlendra ferðamanna. En bókin kom út fáeinum árum áður en ferðamannabylgjan reið yfir, og eru vega- og náttúrulýsingar í samræmi við friðsældina sem var glötuð og ríkir nú aftur.“ Ég sprakk úr hlátri þegar ég las þetta. Hefur útgáfustjórn Forlagsins sest niður og ákveðið að endurútgefa 25 ára gamla skáldsögu vegna þess að ferðamönnum á þjóðvegum landsins hefur fækkað? Getur það verið?