Síðasti dagurinn á Íslandi og Boeing flugvél Icelandair er þegar farin að gera klárt til flugferðar með mig í sæti 11C til Kaupmannahafnar. Á meðan starfsmenn Icelandair undirbúa brottför frá Keflavík er ég enn í Hvalfirði og er að pakka síðustu bókunum niður í tösku. (Hvað ég get þvælst með bækur fram og til baka!)
Veran á Íslandi hefur verið í alla staði frábær og nú kemur það í alvöru í ljós hvað nýja húsið okkar í Hvalfriði er gott og sinnir hlutverki sínu sem miðstöð okkar vel. Hingað hafa komið tugir manna í heimsókn. Hver gesturinn öðrum skemmtilegri og ég hef sannarlega notið þess að geta tekið á móti fjölskyldu og vinum hér með útsýni út til Botnssúlna.
Gestagangurinn var svo mikill yfir helgina að ég hef ekki getað skrifað dagbók í tvo daga í röð og eru ár og aldir síðan ég hef sinnt Kaktusnum svona illa. En nú verð ég víst að bruna af stað til gömlu herstöðvarinnar í Keflavík og setjast í sæti mitt númer 11C svo flugmenn Icelandair fljúgi ekki án mín til Kaupmannahafnar.
ps. Ég sá að Bjarni Bjarnason rithöfundur skrifar um Storytel og Forlagið í Kjarnanum í dag undir greinarheitinu Storytel mætir HUH! Þótt ég sé nokkuð vanur lesari gat ég einfaldlega ekki komist í gegnum texta rithöfundarins. Færni hans í að skrifa texta er svo þróuð að það þarf enn vanari, gáfaðri og staðkunnari lesanda en mig til að skilja og njóta skoðana Bjarna á prenti. Ég get því ekki sagt mikið um greinina þótt efnið veki áhuga minn.