Espergærde. Lögreglusekt setur strik í reikninginn.

Í gær í Hvalfirði í dag í Espergærde og búinn að hlaupa mitt langhlaup, slá gras, bíða eftir að sálin komi aftur í kroppinn og spila tennis. Nú er komið kvöld og ég er að ná áttum.

Á leiðinni út á flugvöll í gær var ég svo mikill álfur að ég keyrði of hratt fram hjá löggunni og var stoppaður og sektaður. Sektin var það há að næstum allir bókasafnspeningarnir sem ég fékk fyrir bækur mínar á bókasöfnum landsins fyrir árið 2019 hurfu í einni svipan þarna á Keflavíkurveginum. Lögreglumaðurinn sem stoppaði mig var vinsamlegur. Þegar hann nefndi sektarupphæðina brá mér og varð strax hugsað til bókasafnspeninganna sem ég hafði verið svo ánægður að fá. Ég sagði lögreglumanninum þó ekki frá að í þessu augnabliks hugsanaleysi mínu hvarf nokkuð stór hluti af tekjum mínum sem bókarhöfundur. Ég er viss um að honum hefði liðið illa yfir því.

Það ætlar sem sagt ekki að verða auðvelt fyrir mig að ná að halda mér uppi sem rithöfundur, þ.e. að hafa nægar tekjur til að lifa að ritstörfum. Ég er búinn að skrúfa fyrir kaffið, segja upp skrifstofunni með öllu sem því tilheyrir, selja skrifborð og nú þarf ég að finna nýjar sparnaðar- eða tekjuleiðir. Annars verð ég rekinn með tapi. Ég vona að bókin mín verði bráðum lesin fyrir hljóðbókarútgáfu og verði sett á Storytel. Þá fer sólin aftur að rísa og fjárhagnum bjargað.

ps. Ég var svo heppinn að hitta einn af meðlimum hljómsveitarinnar Hugar í Hvalfirði. Í heimsókn sinni sagði mér frá tónlistarsköpuninni og útskýrði hvað hann væri að hugsa þegar hann samdi lögin. Ég hef hlustað á þessa tónlist einu sinni áður og ekki náð að grípa hana. Í gær setti ég aftur plötuna á fóninn eftir þessi ánægjulegu kynni við listamanninn og ég var algjörlega heillaður. Mér fannst þetta alveg stórkostlega flott tónlist. Ég var líka alveg steinhissa á því að þessi hljómsveit hefur meira en 30 milljónir hlustanir á sum af lögum sínum. En hér er tóndæmi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.