Espergærde. Vinnuherbergið

Ég er aftur sestur upp á vinnuherbergið mitt. Ég lít út um gluggann og sé græn tré veifa mér í rokinu. Ég sé eyjuna Hveðn og Eyrarsundið sem er úfið og í vondu skapi. En það hefur ekki gerst í meira en mánuð að ég hef fengið mér sæti hér við skrifborðið mitt. Ég sest ekki hér til að vinna heldur til að borga reikninga, alla þá reikninga sem hafa safnast upp á meðan ég hef verið á Íslandi. Og nú er ég búinn að klára það. Yo!

En eftir fimmtán mínútur sest ég upp í bílinn minn og bruna suður Sjáland til að ná í nýjan kött fyrir heimilið. Gattuso kötturinn okkar hefur það gott hérna hjá okkur en okkur finnst dálítið leiðinlegt að hann hefur engan kött til að leika við svo við sækjum kettling af nánast sömu gerð og Gattuso. Það verður spennandi að sjá hvernig það gengur að koma með leikfélaga inn í heimilishaldið.

Ef einhvern langar til að sjá frábæra kvikmynd mæli ég með Jojo Rabbit sem ég sá í gærkvöldi. Kvikmyndin er eftir nýsjálenska kvikmyndagerðarmanninn Taika Waititi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.