Espergærde. Dobbý, köttur og húsálfur.

Ég er að klára bók Ármanns Jakobssonar, Tíbrá. Það hefur tekið mig ár og daga að lesa bókina, eða réttara sagt meira en tvær vikur. Ekki af því að mér þyki bókin leiðinleg, það er hún ekki, heldur vegna þess að sagan nær ekki að vekja áhuga minn. Því miður. Ég hef mikið álit á Ármanni Jakobssyni og ég er viss um hann hefur margt til brunns að bera, en þessi saga hans nær bara ekki að heilla mig. Það er skrýtið að íslenskar glæpasögur ná mjög sjaldan að vekja áhuga minn og les ég sögur eftir marga íslenska glæpasagnahöfunda. Kannski finnst mér íslenskar aðstæður bara ekki nógu góður rammi fyrir glæpi og sögur af þeim. Glæpamenn og illvikri passa í mínum huga bara ekki almennilega inn í íslenskar aðstæður.

Annars er það helst að frétta að kötturinn Dobbý(?) – hann hefur ekki fengið nafn en hann minnir mig talsvert á húsálfinn Dobbý úr Harry Potter bókunum – er kominn og hefur fengið aðsetur á vinnustofunni hjá mér á meðan hann venur sig húsið og Gattuso venur sig við lyktina af honum. Dobbý var svolítið aumur í gær eftir að hann kom en í dag er hann allur annar og er farinn að mala þegar maður tekur hann upp.

Það er enn rok í Danmörku og þegar ég gekk minn langa göngutúr í morgun meðfram ökrunum var vindblásturinn allhressilegur. Og ekki skín sólin hér. Vinir okkar frá Danmörku sem dvelja nú í Hvalfjarðarhúsinu segja mér að það sé logn í firðinum í dag.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.