Espergærde. Að beina sjónauka að hinu ósýnilega

Það er kannski ekki á margra vitorði að ungur maður úr bókmenntunum á afmæli í dag og það stórafmæli. Harry Potter er fertugur. Í fyrstu bókinni, Harry Potter og viskusteinninn, sem kom út árið 1991, varð söguhetjan 11 ára þann 31. júlí. Harry er sem sagt fæddur 31. júlí 1980. Er tilefni til að fagna árunum fjörutíu? Já, mér finnst það. Ég held að hann hafi gert líf margra skemmtilegra. Harry gerði mína góðu tilveru að minnsta kosti enn betri.

Ég er ekki enn byrjaður að vinna, held enn sumarfrí, því nýt ég þess að fara í langa göngutúra. Í gær gekk ég meira en 20.000 skref út á akrana handan skógarins í fjarska. Það voru þröngir stígar, malarslóðar og fáfarnir þjóðvegir sem ég þrammaði eftir og ekki urðu margir á vegi mínum.

Að vísu vakti eldri herramaður athygli mína þegar hann kom skyndilega út úr skógarrjóðri með kíki í hönd. Hann hafði ekki tekið eftir mér og eiginlega læddist yfir malarslóðann sem ég gekk eftir með kíkinn í báðum höndum eins og hann væri tilbúinn að munda hann. Það var ekki bara sjónaukinn sem vakti athygli mína hjá þessum gráhærða manni sem laumaðist hálfboginn þvert á gönguleið mína heldur voru það líka sandalarnir hans sem voru eins og fílsþófar – eða segir maður að fílar hafi þófa? – þykkir eins og fílsfætur, kyrfilega festir á manninn með þremur ólum. Síðan kraup hann niður á annað hné og mundaði kíkinn. Ég gerði eiginlega ráð fyrir að hann væri að skoða fugla en þegar ég gekk á bak við hann og fékk sama sjónarhorn sá ég að hann beindi kíki að bóndabæ sem stóð í skógarrjóðri ekki langt frá.

Ég náði eiginlega ekki að furða mig á þessu því um leið og ég skyldi á hvað maðurinn var að glápa varð hann mín var og leit upp. Hann horfði á mig í gegnum ferköntuð silfurspangargleraugu og virtist nokkuð skömmustulegur. Ég lét samt sem ekkert væri og ætlaði bara að ganga mína leið, enda kom mér ekki við á hvað maðurinn væri að kíkja. Ég kastaði kurteislega kveðju á manninn eins og maður gerir þegar einhver verður á vegi manns úti í náttúrunni. Hann bauð mér líka góðan daginn en bætti svo við með ísmeygilegu glotti: „Ég nota kíkinn til að reyni að sjá hið ósýnilega. Allt hið ósýnilega er það áhugaverðasta: ástin og Guð svo ég nefni dæmi.“
Mér fannst þetta fyndið svo ég brosti og kannski flissaði ég. Ég var ekki alveg viss um hvað maðurinn meinti, eða öllu heldur hvort hann meinti það sem hann sagði. Svo ég svaraði í einhverjum hálfkæringi: „Einmitt.“
Síðan gekk ég áfram.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.