Espergærde. Dauður fugl og bústaður Hamlets.

Ég fann dauðan fugl á göngu minni í gær og auðvitað vissi ég ekki hverrar tegundar fuglinn var. Ég er því miður vonlaus í fuglanöfnum og það finnst mér leiðinlegt. Með árunum hef ég æ meiri áhuga á náttúrufræði, en sá áhugi var alltof lítill þegar ég var yngri. Þegar ég var barn þekkti ég öll heimsins bílmerki, bílaheiti og afbrigði af þeim: Saab 99, Saab 96, Saab 95, Saab 900 … Ég þurfti bara að að heyra vélarhljóð til að þekkja tegundarheiti bílsins. En heyri ég fugl syngja hef ég ekki hugmynd um hvaða fugl gefur hljóðin frá sér (nema hrossagaukurinn) og hef aldrei vitað.

Ég komst að því fyrir tilviljun að dauði fuglinn sem ég fann heitir á íslensku Múrsvölungur eða Turnsvala og er fugl af Svöluætt. Þetta er fugl sem getur víst haldið sér á lofti sofandi. Sumir segja að hann snerti aldrei jörðina. En fuglinn lá friðsæll í vegarkanti á malarvegi sem næstum enginn gengur. Allt í kring eru bleikir kornakrar og lengra í fjarska taka við há, græn tré. Ég tók fuglinn upp og lét hann hvíla í lófa mínum. Vængirnir voru krosslagðir eins og sljóir hnífar, augun voru lokuð og ég vissi ekki hvað ég átti að gera við hann. Yfir fuglinum var einhver alvarleiki, jafnvel hátíðleiki svo ég ákvað að ég skyldi ekki henda honum aftur í vegarkantinn heldur taka hann með mér heim og grafa hann.

Og það gerði ég. Ég tók þverhandardjúp holu í garðinum heima hjá mér eftir gönguna og lét fuglinn hvíla þar. Mér fannst ég skyndilega meiri náttúrumaður en ég er. Ég er viss um að upp af fuglsleiðinu vaxi falleg blóm og ég skal hundur heita grafi ég ekki upp nafnið á blóminu sem á eftir að spretta upp..

Ég ætlaði að segja tvennt: 1) ég fór í morgun í smásiglingu með duglega manninum. Hann er búinn að kaupa lítinn, ítalskan bát með mótor. Mig langaði að skoða Krónborgarkastala frá sjó. Ég veit ekkert um Hamlet, hef aldrei lesið leikritið og ekki neitt eftir Shakespeare. Samt langaði mig að skoða sviðsmynd Hamlets frá sjó. 2) Ég lenti í hálffurðulegri veislu í gær sem endaði hér heima hjá mér. Allt gott en þetta var óvænt veisla og ég er þreyttur í dag og á að spila tennis á eftir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.