Espergærde. Nashyrningur teiknaður á vegg.

Síðdegis í gær, á sunnudegi, arkaði ég aftur af stað þótt ég hefði eiginlega meiri löngun til að liggja upp í sófa. Ég var þreyttur eftir hin miklu veisluhöld helgarinnar, bæði föstudag og laugardag. En þrátt fyrir letina sem hafði tekið sér bústað í kroppinum á mér hnýtti ég á mig strigaskóna mína og gekk af stað út á akrana. Ég átti erindi; að finna blýantinn sem ég hafði rekist á fyrr um daginn. Eiginlega var ég viss um að blýanturinn væri enn þarna sem ég hafði fundið hann því á þessum afskekkta malarvegi ganga nánast engir nema ég og undarlegir menn með sjónauka.

Auðvitað var blýanturinn á sínum stað í vegarkantinum. STAEDTLER, Made in Germany. Ég sá að einhver hafði nagað hann; kannski hundur eða kannski skrifstofumaður hjá skattheimtunni. Ég tók samt blýantinn upp og flutti hann með mér hingað heim og upp á kontórinn. Ég hafði nefnilega ákveðið að nota blýantinn til að teikna nashyrning hér á vegginn og sjá hvað kæmi út úr því.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.