Espergærde. Að fara og koma.

Ég reyni að telja mér trú um að sumarfríinu mínu sé lokið og nú eigi ég að fara að vinna. Það er samt einhver tregða í mér að setjast niður, einangra mig til að þýða og skrifa. Það er ókyrrð hér á heimilinu; strákarnir heima, skólinn hjá Davíð ekki byrjaður og Númi er í fríi en á leið til Kýpur með vini sínum í kvöld. Og svo er nýr köttur á heimilinu. Vinnufriður er því ekki það sem maður hugsar um þessa dagana.

Ég fékk óvænt sms í gær frá erótísku skáldkonunni sem spurði mig hvort ég hefði hálftíma til að tala við hana. Við gætum hist niður á Il Divino kaffihúsinu. Ég hafði tíma aflögu og ekki löngu síðar sat ég á stól við hlið erótísku skáldkonunnar sem hafði tekið frá borð í sólinni fyrir utan veitingastaðinn. Það var líf á veitingastéttinni; hvert borð setið, fólk gekk hjá með ís og sólgleraugu og skyndilega voru til ótrúlega margir opnir bílar, eða þaklausir bílar, eða hvað maður kallar þessa bíla, sem þutu hjá eftir Strandvejen meðfram veitingasvæði Il Divino.

„Æ, takk fyrir að þú nennir að drekka kaffi með mér … æ, hvað þú ert sólbrúnn og sætur … varstu á Íslandi?“
Svona heilsaði erótíska skáldkonan þegar ég settist við hlið hennar. Hún er alltaf alúðleg og dregur fram það besta í viðmælendum sínum enda er hún óspör á hrós og uppörvandi orð. Hún var sjálf sólbrún og ljósu krullurnar á höfðinu voru bæði ljósari en venjulega og enn síðari.
„Jú, ég var á Íslandi. Þú ert sjálf sólbrún og síðhærð. Varstu í útlöndum?“
Ég vildi ekki nefna að hún liti vel út því hún verður þá svo uppveðruð.
„Nei, ég var ekki í útlöndum. Ég er komin heim. Og það er einmitt það sem ég ætla að tala um við þig. Ég er að skipuleggja fyrirlestraröð rithöfunda. Ég er á fullu!“
„Rithöfunda?“
„Já, ég er búinn að fá fjóra rithöfunda …“ – og svo nefndi hún nöfnin á höfundunum fjórum og mér til furðu þekkti ég öll nöfnin. Þetta voru stór nöfn, meðal annars Kim Leine – „og ég kalla fyrirlestrarröðina: At rejse ud og komme hjem.“
„Og af hverju ertu að tala við mig um þetta?“
„Af því að þú hefur prufað að búa í útlandi og komið heim! Og svo ertu bæði forleggjari og rithöfundur.“
„Ég bý í útlöndum og er ekki enn kominn heim …“
„Æ, líturðu þannig á þetta?“
„Og svo er ég hvorki rithöfundur né forleggjari.“
„Æ, láttu ekki svona … auðvitað ertu bæði …“

En ég tók sem sagt ekki að mér að halda fyrirlestur um að búa í framandi landi og koma aftur heim. Erótíska skáldkonan er upptekin af þessu. Hún hafði sjálf búið í því „hræðilega landi Saudí-Arabíu“ og vill mjög gjarnan miðla þeirri reynslu. En ég ætla að fara að hlusta þegar Kim Leine talar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.