Espergærde. Táknin og vegvísirinn.

Um helgina fann ég blýant og ég var fljótur að gefa fundinum táknræna merkingu. Bæði í gamni og alvöru. Ég hafði látið blýantinn liggja þar sem ég fann hann en ég stóðst ekki freistinguna að fara nokkrum klukkutímum síðar til þess að sækja blýantinn. Hugmyndin var að nota hann til að teikna nashyrning á vegg vinnustofunnar. Ég hef enn ekki haft kjark til að rissa upp nashyrninginn. Þeir sem þekkja klassískar bókmenntir vita hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér.

Í gærkvöldi fékk ég bréf frá réttindastofu Forlagsins – afar vinsamlegt bréf – þar sem ég var spurður hvort mér hafi ekki borist ensk þýðing bókarinnar Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins? Þýðingin var send til mín fyrir rúmri viku af enska þýðandanum og þýðandinn var orðinn hissa á að ég skyldi ekki bregðast við sendingunni þrátt fyrir ítrekanir. Ég brást hratt við og fann bréf þýðandans og þýðinguna sjálfa í svokölluðu „junkmail boxi“ tölvunar minnar! Nú varð mér hálfbrugðið því ef maður sér tákn í öllum atburðum gæti maður freistast til að líta svo á að það sé ekki sérlega gott merki að þýðing lendi í rusli tölvunnar minnar. En ég hef ákveðið að gefa þessum atburði ekki æðri merkingu, nema kannski að ég ákveði að það sé merki um eitthvað gott að óhapp hendi í upphafi handritsferilsins þýðingarinnar.

Í gærkvöldi las ég fyrirtaks gott viðtal við mann, Kaupmannahafnarbúa, sem þvert á allt ákvað að kaupa bóndabæ og byrja að rækta á náttúruvinsamlegan hátt. Þessi maður hafði allt sitt fullorðinslíf verið borgarrotta og stundað hið góða líf borgarinnar. Foreldrar hans höfðu þó alltaf reynt sitt ýtrasta til að kenna honum í uppeldinu að umgangast náttúruna. Öll sumarfrí hans voru tjaldfrí fjarri mannabyggð, oft í óbyggðum Svíþjóðar á meðan vinir hans fóru í hópferðir til Mallorca og Kanaríeyja.

Ég minnist á þetta hér því mér datt í hug þessa frægu orðskviðu um að „fræða hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ Ætli þetta sé ekki bara satt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.