Ég rakst fyrir tilviljun á tilkynningu frá Louisiana-safninu hérna í nágrannabænum Humlebæk um að rithöfundurinn Kasper Colling Nielsen ætlaði að fjalla um tengsl bókmennta og fótbolta. Mér fannst ég hafa himinn höndum tekið. Akkúrat það sem ég hafði áhuga á. Í blíðviðrinu í gærkvöldi arkaði ég því af stað á fyrirlesturinn. Louisiana er í göngufæri frá heimili mínu og á göngunni minnti ég mig á að vera þakklátur fyrir nálægðina því á safnið flykkjast að jafnaði dag hvern þúsundir ferðamanna frá fjarlægum heimshornum bara til að skoða fegurð safnsins. Það skil ég vel því safnið er eitt heimsins glæsilegustu og ég bý bara í göngufæri frá því.
Undir berum himni var dagskráin um fótboltann og bókmenntirnar haldin. Ég hafði talið mér trú um að Kasper ætti bara að spjalla einn og sjálfur en ég sá að annar maður sem hafði líka komið sér fyrir á stól á sviðinu. Hann var í gífurlega afslappaðri stellingu. Öll hans líkamstjáning átti að senda merki til þeirra fáu áheyrenda (færri en 50) um að þarna færi nokkuð afslappaður maður sem léti ekki sviðsveruna setja sig út af laginu. En það var einmitt þessi afslappaða nálgun mannsins – sem reyndist vera spyrill kvöldsins – sem gerði dagskránna afar slappa og óinteressant. Það vantaði alla skerpu sem menn fá ef þeir sitja á stólbrúninni. Ekki er hægt að kenna skáldinu þessa misheppnuðu dagskrá. Spurningarnar sem hann fékk voru svo hræðilegar, svo stórar og yfirgripsmiklar að skáldið gat ekki annað sagt en að „spurningin væri ansi góð en hann hefði því miður ekkert gott svar við henni“. Samt reyndi skáldið að klóra í bakkann og fálma eftir svari. Niðurstaðan var því miður ekki önnur en tafs og tuð. Spyrillinn hékk í stólnum sínum og kom skáldinu alls ekki til hjálpar eða beindi honum á færa útgönguleið úr ógöngum sínum.
En hvað um það. Kvöldið var gott og gaman að fara af stað til að hlusta á skáldadagskrá. Kannski var eftirminnilegasta atvik kvöldsins samt bara baksvipur manns sem sat skammt frá mér. Ég sá ekki betur en þarna væri sá góði maður Pétur Ástvaldsson. Eftir hik og nákvæma skoðun sá ég að þarna fór annar maður en með nákvæmlega sama baksvið og Pétur.
Ég er farinn að stunda hlaup og leikfimi á hverjum degi nú (það er langhlaup einn daginn og leikfimi hinn). Í morgun var hlaup á dagskránni; það er langhlaup. Í litla þorpinu mínu er heitt þessa dagana. Sólin skín af bláum himni og heit golan kemur úr suðri, sennilega frá Sahara, svo heit er hún. En ég reyni að láta hitann ekki hafa áhrif á hlaup mitt heldur reyni að telja mér trú um að það sé bara spurning um hugarfar hvernig maður bregst við þessum mikla hita og því aukalíkamsálagi sem honum fylgir. Og það er sannarlega rétt. Mér skilst að maraþonhlaup snúist fyrst og fremst um hugrekki; að vera óhræddur við að hlaupa hratt þótt framundan séu 40 km.
Ég kláraði að lesa ensku þýðinguna á fyrri bókinni í Álftabæjarbókaflokknum (Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins). Mér fannst í raun gaman að lesa bókina á ensku. Auðvitað er ég bara amatör í enskri tungu en mér fannst tónninn góður og þýðingalausnir þýðandans sannfærandi. Ég skila mínum léttvægu athugasemdum í dag.
ps. nú þarf ég að fara að semja kynningartexta um sjálfan mig til að setja á heimasíðu Forlagsins. Það hafði víst gleymst. Sennilega þýðir það að ég er ekki enn mikilvægasti höfundur Forlagins. Það kemur. Yo!