Espergærde. Unga parið með samræmdar áletranir

Fyrir nokkrum dögum mætti ég á ferðum mínum ungu pari, það er að segja tveimur ungum einstaklingum. Ég veit ekki hvort þau voru kærustupar eða bara tvær mannverur hvor af sínu kyni, en bæði gengu þau léttklædd – enda heitt í veðri – í stuttermabolum með áletrun. Það vakti þó athygli mína að svo virtist sem þau hefðu samræmt útlit sitt áður en þau gengu af stað út á malarstíginn í jaðri skógarins. Stúlkan, sem var sennilega í kringum tvítugt (það var ungi maðurinn líka) gekk í gulleitum bol með áletruninni „ÉG ER VEGAN“. Fyrir þá sem ekki vita hvað VEGAN er þá er það einstaklingur sem lætur ekkert úr dýraríkinu inn fyrir sinn munn; ekki egg, ekki mjólk eða osta og ekki kjöt. Ungi drengurinn, sem var í fylgd með stúlkunni gekk í svörtum bol og framan á brjóstinu stóð ritað með hvítri steinskrift: „ÉG ER ALÆTA“. Fyrir þá sem ekki vita hvað ungi maðurinn á við með þessari boláletrun tel ég að hann eigi við að hann borði bæði matvöru úr jurtaríkinu og dýraríkinu.

Mér þótti þetta svolítið spaugilegt að fara út að ganga og klæðast bolum með samræmdri yfirlýsingu um hvað maður lætur upp í sig. Ég er það sem ég borða mætti kannski túlka yfirlýsingu ungmennanna. En svo hugsaði ég ekki frekar út í þessar sjálfsmerkingar unga parsins og gekk mína leið til að klappa beljunum sem eru með hálfstálpaða kálfa sína úti á afgirtu engi handan við skóginn. Ég kann vel við beljur og fallegan svipinn á þeim. En það breytir ekki því að ég borða þær eins og fallega kálið sem skýtur hausum sínum upp úr moldinni á grænmetisökrunum í nágrenni við Humlebæk, aðeins lengra frá þorpinu mínu.

Ég minnist á þetta hér því ég las í morgun að nýstofnaður stjórnmálaflokkur hér í Danmörku, VEGANFLOKKURINN, hefur hlotið nægjanlega margar undirskriftir til að geta boðið sig fram til hins danska alþingis. Stefnumálin eru viðkunnanleg; velferð dýra, minni matarsóun og annað slíkt. Þrátt fyrir vinsamlega sýn mína á stefnuskrá flokksins finnst mér undarlegt að stofna stjórnmálaflokk byggðan á því hvað maður borðar. Og meira en það; þeir sem EKKI eru VEGAN mega ganga í flokkinn en hafa þó engan atkvæðisrétt á fundum flokksins. Unga alætan má sem sagt vera með en er áhrifalaus í flokksstarfinu.

Þetta var um stjórnmál. Nú kemur smávegis um bókmenntir. Ég kláraði loksins glæpasögu Ármanns Jakobssonar TÍBRÁ og ég hef verið lengi að því. Ég hef paufast í gegnum síðurnar. Mér þykir leiðinlegt að segja það – því ég vil Ármanni Jakobssyni einungis það besta – að mér þótti bókin harla leiðinleg. Vel getur verið að ég sé einn um það. En svona er það með sumar bækur; þær höfða ekki til manns. Mér þótti sem sagt söguþráðurinn kjánalegur – sjálfur lykilglæpurinn neyðarlega mikið far out (ótrúverðugur og langsóttur) – persónurnar þóttu mér ekki sérlega interessant og svo fram eftir götunum. Til að kóróna þetta allt las ég í gær nýlegan ritdóm um bókina sem vakti furðu mína því lesreynsla ritdómarans var svo langt frá minni eigin reynslu. Það var hreinlega eins og við hefðum ekki lesið sömu bók. Ég stóð mig að því að gruna gagnrýnandann um að hafa fallið í þá gildru sem gagnrýnendur í litlu samfélagi detta oft í: að gefa öllu jákvæðan dóm. Mér finnst betra – bæði fyrir höfund og af virðingu við væntanlega lesendur – að segja heiðarlega frá kostum og löstum bóka (eða sleppa að tala um leiðinlegar bækur) heldur en að dásama allt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.