Espergærde. Einu sinni á dag.

Þegar ég sótti dagblaðið út í póstkassa í morgun tók ég eftir hve ægilega mollulegt var utandyra þótt enn væri varla kominn morgunn. Loftið var algjörlega kyrrt og en samt var eins og maður andaði að sér lofti úr hvínandi hárblásara. Þetta hugsaði ég í fáar sekúndur en sneri svo upp á veröndina til að leggja dagblaðið á kringlótt borð sem ég hef komið fyrir þar sem ég hef vanið mig á að drekka morgunkaffið. Forsíðfréttin sem blasti við mér fjallaði um hitabylgjuna sem nú siglir hægt og rólega yfir Evrópu. Nú er hún komin alla leið hingað, hugsaði ég og leit upp í heiðbláan himininn.

Hitinn er þess slags að manni finnst eiginlega ekki hægt að vera inni, það sé sóun á þeim sjaldgæfa möguleika á að njóta heitra sumardaga. Ég gat því ekki einbeitt mér að dagblaðalestri heldur gekk ég af stað. Ég ákvað að taka með mér öxina sem ég hafði fengið lánaða í gær til að höggva brenni í pizzaofninn – já, ég bakaði margar pizzur í gær, ofan í nokkuð marga gesti – og tvígang var ég stoppaður á göngu minni áður en ég komast á áfangastað með öxina. Fyrst stoppaði nágranni minn mig en hann getur fylgst með því sem gerist á veröndinni hjá okkur út um gluggann á annarri hæð hússins síns. Hann sagðist hafa velt fyrir sér að panta pizzu hjá mér í gærkvöldi enda hefði pizzailmurinn verið svo góður. Síðan var ég stoppaður af öðrum náunga, sem býr neðar í götunni og gengur undir nafninu „háværi maðurinn“ hér á heimilinu því honum liggur svo hátt rómur að maður heyrir hvert orð sem hann segir þegar hann er fyrir utan húsið sitt þótt það sé meira en 100 metra í burtu. Háværi maðurinn stoppaði bíl sinn, rúllaði niður hliðarrúðuna og spurði í gamansömum tón hvort ég væri að fara að þagga niður í þeim sem hefðu kvartað undan veisluhöldunum hjá mér í gær. (Pizzuveislan var róleg og engin hávaði). Honum fannst hann vera fyndinn því hann hló hátt áður en hann brunaði af stað á bílnum sínum.

En þrátt fyrir þetta góða veður er ég samt sestur inn til að skrifa þessar línur. Maður reynir að standa við orð sín að skrifa einu sinni á dag.

ps ætli það sé rétt að JK. Rowling sé í Hólmavík –Holmavikbay? Ég fékk tölvupóst með mynd af frétt um að JK. Rowling væri stödd á Íslandi en myndavél bréfritara er svo léleg að ég get ekki almennilega lesið fréttina og ég finn engar fréttir um þetta á íslenskum, svokölluðum, netmiðlum. En ef ég rýni í myndina sem mér barst finnst mér eins og sagt sé að Rowling vilji kynna sér Hólmavík eftir að hafa lesið bókina Vegurinn til Hólmavíkur eða The Road to Holmavik-bay eins og hún heitir á ensku.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.