Espergærde. Langintes í kapphlaupi við drauga.

Enn er hvínandi heitt í veðri en ég var þó kominn út að hlaupa um níuleytið. Ég hafði ákveðið að hlaupa mitt langhlaup í hægara tempói en ég er vanur, reyna að slappa aðeins af í hlaupinu. Það gekk vel fyrsta kílómeterinn (að vísu skammaðist ég mín eiginlega þegar ég sá hvað ég hafði hlaupið hægt). Ég hafði skokkað upp löngu brekkuna, sem ég þarf að sigra til að komast út úr bænum og út á malarvegina, þegar ég sá tvo unga menn á hlaupum nokkuð langt fyrir framan mig. Sennilega ber það ekki vott um mikinn þroska en ég get ekki látið vera að reyna að taka fram úr þegar ég sé einhverja hlaupa á undan mér. Þótt ég hafði lofað sjálfum mér að slappa af í hlaupinu herti ég hraðann og smám saman nálgaðist ég ungu hlauparana.

Þegar ég var einungis 20-30 metrum fyrir aftan þá (og ég var orðinn ansi móður) tók við önnur nokkuð löng brekka. Ég ákvað því að halda mig bara fyrir aftan hlauparana því ég var ekki viss um að ég gæti hlaupið nógu hratt til að taka almennilega fram úr. Ég var þreyttur, það var heitt og ég hafði misst kjarkinn þegar ég sá brekkuna framundan. Við þrír hlupum því í takt upp brekkuna, þeir á undan og ég rétt á eftir. Mitt plan var að safna kröftum svo ég gæti hlaupið greitt fram út þeim. Upp á brekkutoppnum hóf ég framúrhlaupið. Ég spretti úr spori og fór hratt og örugglega fram úr drengjunum. Ég heyrði einhver óánægjuhróp frá þeim þegar þeir tóku eftir að ég hafði skotist fram úr. Skyndilega tóku þeir á rás og þustu á eftir mér því ekki vildu þeir láta þennan íslenska langintes þjóta fram úr. Ég herti því líka hraðann því ekki vildi ég láta tvo drengi hlaupa hraðar. Skyndilega hófst ægilegt kapphlaup næstu hundrað metra eftir götum Espergærde. Ég var gersamlega að springa þegar ég heyrði ekki lengur fótatak ungmennanna fyrir aftan mig. Ég leit um öxl og sá að þeir höfðu beygt af leið og hlupu nú eftir hliðarstíg og létu sem þeir hefðu ekki verið á fleygiferð á eftir mér. Auðvitað hægði ég ferðina – gekk ekki – en það sem eftir var hlaups dró ég satt að segja lappirnar eftir jörðinni. Þótt ég væri úrvinda var ég líka hálfspældur yfir að fá ekki að njóta sigursins almennilega eða að drengirnir viðurkenndu ósigur sinn.

Mér varð hugsað til hnefaleikakappans Tyson Fury sem vann heimsmeistaratitilinn í þungavigt árið 2015 þá 27 ára gamall. Öll hans bernska, ungdómsár og fullorðinslíf höfðu snúist um að vinna þennan titil. Þegar heimsmeistaratitill kom loks í hús eftir frækinn sigur á rússneskum ofurboxara, helltist ægilegt þunglynd yfir Fury. Honum fannst hann ekki lengur hafa neitt að stefna að eða lifa fyrir. Hann hafði náð markmiðum sínum 27 ára gamall og hvað svo? Næstu ár Tyson Fury voru mikil hörmungarár; þunglyndi, drykkja, dóp og kynsvall og allt stefndi hraðbyri til andskotans. Ég veit ekki hvernig gengur hjá Fury nú en hann mun víst hafa náð sér á strik aftur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.