Espergærde. Ein bókasafnshjón og tveir rithöfundar

Ég hafði víst verið eitthvað aumur yfir að geta ekki hlustað á útvarpsþátt um William Faulkner í gær. Ég skráði það hjá mér á Kaktusinn. Skömmu eftir að vælið í mér birtist opinberlega hafði starfsmaður Ríkisútvarpsins samband við mig og sendi tölvupóst með orðunum: „… þátturinn sem týndist er kominn á vefinn. Taktu gleði þína. Njóttu vel …“ Þetta kallar maður nú þjónustu. Í dag er ég með fyrirætlanir um að ganga út í sveitirnar og hlusta á þáttinn með hátalara í eyrunum. Og hér er tengillinn fyrir þá sem eru áhugasamir um að hlusta á Faulknerþáttinn.

Ég las frétt í gær um að Andri Snær Magnason, fyrrum forsetaframbjóðandi, hefði komið með nýstárlega tillögu til að lokka stóran hóp útlendra manna til að setjast að á Íslandi í langan tíma og stunda fjarvinnu í stað þess að reyna að fá fleiri ferðamenn í vikutúra. Hugmynd Andra var að bæta á þann hátt upp það mikla tap sem hrun ferðamannaiðnaðarins hefur orsakað. Mér þótti tillagan skemmtileg og dásamaði í huganum Andra Snæ fyrir hugmyndaauðgi og hæfileikann til að setja tillögur sínar fram í lokkandi búningi. Ég er viss um að tillaga hans sé framkvæmanleg en það krefst þess að allir leggist á eitt. En ekki er ég jafnsannfærður um að fólki þyki hugmynd hans svo góð að það nenni að berjast fyrir henni.

Á meðan ég velti fyrir mér Andra Snæ og hæfileikum hans til að setja hugmyndir í söluvænlegan búning rifjaðist upp fyrir að árið 1996 stofnaði Mál og menning lítinn bókaflokk sem hét, ef ég man rétt, Ung – Mál og menning eða eitthvað á þá áttina. Hugmynd forlagsins var að kynna ung og upprennandi skáld. Í fyrstu atrennu komu út þrjár bækur í flokknum og voru skáldin Andri Snær, Kristján B. Jónasson og Gerður Kristný Guðjónsdóttir valin til að vera fánaberar fyrir þennan nýja bókaflokk. Andri með smásagnasafnið, Engar smá sögur, Kristján með skáldsöguna Snákabani og Gerður með bókina Regnbogi í póstinum. Ég man að mér þótti þetta spennandi og keypti allar bækurnar og las þær mér til ánægju. Tríóið ferðaðist um landið til að kynna bækur sínar og kom víða fram. Það var sem sagt nokkuð lagt í kynninguna til að koma bókaflokknum á laggirnar. Ég held þó að ekki hafi komið fleiri bækur undir fána UNG – Mál og menning en þessar þrjár. Þetta framtak hefur þó borið ríkulegan ávöxt: að minnsta kosti tvo rithöfunda og eitt stykki bókasafnshjón.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.