Glyngør. Óvelkomnir og velkomnir gestir

Ég er kominn til norðvestur-Jótlands, langt út á hinar jósku heiðar eftir nokkra keyrslu á rafbílnum. Erindið var að heimsækja gamlan þýðanda og samstarfsmann til margra ára sem hefur hvað eftir annað hvatt okkur til að koma í heimsókn. Ég er auðvitað svakalegur álfur því hér í sveitum Jótlands eru ekki margir staðir þar sem hægt er að hlaða rafbíl og ég gleymdi rafkaplinum. Ég er sem sagt í vandræðum. En það bjargast einhvern veginn.

Í gær fékk ég mynd af snekkju í tölvupósti og í skýringartexta tölvupóstsins mátti lesa að þarna sigldi snekkja JK Rowling fyrir utan vesturströnd Íslands. Ég hafði reyndar heyrt um veru hennar á Íslandi og líka heyrt að einhverjir hávaðasamir einstaklingar hefðu verið óánægðir með komu barnabókahöfundarins vegna skoðana hennar og mótmælt veru hennar á Íslandi. Hún mun víst hafa styggt hóp fólks sem er á öndverðum meiði við skoðanir barnabókahöfundarins. Mér skilst að Rowling muni hafa haldið því fram að kynin séu tvö: karl og kona. Ég á frekar erfitt með að skilja að þessi góði barnabókahöfundur sé óvelkominn til landsins vegna þess að hún hefur orðað þessar skoðanir. Það eru væntanlega fleiri sem hafa álpast til Íslands og eru á sama máli og JK Rowling en fengið að vera óáreittir. Eru þessi mótmæli kannski vegna þess að hún siglir á þessari snekkju? Er einhverjum illt í rassinum út af því?

Snekkja Rowling (aðsend mynd)

Annars er það að frétta að annar heimsfrægur höfundur er á landinu í einkaerindum. Dan Brown, bandaríski metsöluhöfundurinn, er kominn til Íslands til að fagna Ragnari Jónassyni og hans frækna árangri í sölu bóka sinna í heiminum. Nú eru til dæmis tvær af bókum hans á þýska metsölulistanum. Skoðanir Dan Brown hafa mér vitanlega ekki vakið neina gremju ákafra rétttrúarsinna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.