Espergærde. Nýtt starf. Til hamingju.

Eiginlega vaknaði ég í morgun við þá hugsun að ég þyrfti að núllstilla mig. Núllstilla sjálfan mig. Ég hafði sofið illa; vaknað um miðja nótt með agalega magapínu, bullsveittur og hjartað barðist í brjósti mér. Ég var því bæði þreyttur og illa upplagður þegar ég fór á fætur. „Ég þarf að núllstilla mig,“ hugsaði ég. „Nú ákveð ég ekkert, geri engar aðrar áætlanir. Ég fer í kalda sturtu og fæ mér svo morgunmat. Svo sjáum við til, Snæi minn.“

Ég hresstist við sturtuna, kaffið og hafragrautinn en ég var lengi í gang. Enn skín sólin og hitinn er í hærri kantinum. Sennilega rétt við þrjátíu gráður.

Yfir hafragrautum rifjaði ég upp samtal sem ég átti í gær við ágætan mann sem hafði lesið færslu mína um þær hugmyndir sem ég hafði um fengið um rekstur bókaforlags og lýsti hér á Kaktus sem hreint stórkostlegum. Maðurinn vildi að fá að heyra meira og var svo áhugasamur – um leið og hann var fullur efasemda um að þessi ídealístíska sýn á forlagsrekstri væri möguleg í hinum raunverulega heimi – að hann hreinlega yfirheyrði mig. Ég var sannfærður um að þetta væri vel mögulegt og þróaðist samtalið upp í einskonar langt atvinnuviðtal. Ég held að ég hafi fengið jobbið á endanum. Nýr forlagsstjóri yfir draumaforlagi. „Ég held bara að þú sért að lýsa því forlagi sem þú sjálfur vildir vera gefinn út hjá,“ var niðurstaða viðmælanda míns og það var sennilega hárrétt. Mig dreymir að koma út hjá draumaforlaginu mínu.

En nú ætla ég út. Ég er enn að núllstilla mig. Ég stefni út á akrana því ég ætla að hlusta á þátt tvö af þrem um William Faulkner í umsjón Eiríks Guðmundssonar. Mjög gott efni. Stundum furða ég mig á hvað ég hef mikinn áhuga á bókmenntum … hvaðan fæ ég þetta? En ég varð bara svo glaður í mínu eilífa flandri um heim bókmennanna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.