Espergærde. Teikning

Ég hef ekki erft teiknigáfu pabba míns. Það hefur Didda systir mín og Hafliði bróðir minn. DNA-ið sem flytur teiknigáfu hefur ekki komið til mín. Ég hef samt tekið að mér að rissa upp hluta af götukorti fyrir sögusvið bókar sem á að koma út í október. En ég er merkilega hæfileikalaus teiknari. Sem betur fer á kortið mitt ekki að birtast á saurblöðum bókarinnar heldur verður sérstakur teiknari settur í verkið og byggir hún (teiknarinn er kvenkyns) á þessu slappa rissi frá mér.

Ég er annars of afkastalítill. Hef þurft að vera á fundum bæði í gær og í dag og það fer alveg með dagana finnst mér. Þegar órói er á dögunum sest ég niður á rólegri stundum og held áfram að þýða en rís svo á fætur til að sinna því sem vekur óróa þangað til allt róast á ný og ég get sest aftur niður.

Eru viðbrögð yfirvalda gagnvart kórónaveirunni of hörð? Af fréttum að dæma virðist sem langlundargeð almennings gagnvart veirunni og þeim sóttvörnum sem henni fylgir sé á þrotum. Kannski ekki skrýtið þegar hinir smituðu veikjast ekki svo alvarlega eins og í fyrstu. Aðgerðirnar nú eru kannski ekki alveg í takti við þann litla usla sem veiran vekur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.