Espergærde. Að segja satt

Kannski hefur gleymst að kenna börnum að það sé manneskjulegt að hrasa. Það hefur kannski líka gleymst að kenna þeim að maður eigi að leggja sig fram um að gera sitt besta og allir eigi samt eftir að gera mistök og hrasa. Um þetta fór ég hugsa þegar ég hlustaði á tal nokkra unglinga í lestinni í gær. Mér fannst þeir bæði dómharðir, orðljótir og neikvæðir unglingarnir og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég fer að hugsa um þetta þegar ég hlusta á tal ungmenna á opinberum stöðum. Ég held að skólakerfið og kannski foreldrar hafa alveg gleymt að kenna um mikilvægi náungakærleika og fyrirgefningarinnar. Kenna um samúð og hluttekningu.

Ég þýði þessa dagana, sit yfir íslenskun á glæpasögu og reyni að þýða að minnsta kosti tólf blaðsíður á dag. En undanfarið hefur skort á einbeitingu hjá mér; hugurinn er alls staðar og hvergi. Eins og sýndi sig þegar orðið empathy mætti mér í textanum. Það tók mig sennilega hátt í tíu mínútur í einbeitingarleysi mínu að finna íslenskt orð yfir hugtakið. (Ég vildi ekki grafa fram orðabókina). Þýðingin gengur sem sagt hægt.

Þessar vikurnar les ég bækur eftir Dag Solstad. Það eru margir ósammála mér um ágæti þess höfundar en sem betur fer finnast líka nokkrir sem eru sama máli og ég. Stundum þegar ég les skáldsögur finn ég svo mikið fyrir áreynslu höfundarins við skriftirnar; maður finnur svo fyrir að hinar skálduðu persónur eru skáldaðar. Á sama hátt og þegar maður fer í leikhús og skynjar svo mjög að leikararnir eru að leika fólk. En þetta er ekki vandi Dag Solstad því honum tekst að gera sögurnar að einhverju meiru en frásögn. Kannski af því að hann vill segja eitthvað satt. En ég lyftist að minnsta kosti upp.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.