Espergærde. Óskabarn ógæfunnar og óbærilegt rekstrartap.

Í gærkvöldi sótti ég dagskrá í húsi Karen Blixen, Rungstedlund, sem hafði vakið áhuga minn. Nokkur kvöld í ágúst og september verða helguð rithöfundum sem hafa flutt til útlanda og búið þar í lengri tíma og snúið síðan aftur heim. Dagskráin í gær var vel heppnuð. Merete Pryds Helle, danskur rithöfundur, talaði um átta ára veru sína á Ítalíu og árin eftir að hún flutti heim. Hún sagði vel frá og ég þekkti margt í því sem hún talaði um; söknuðinn, einsemdina, styrkingu á eigin þjóðarvitund, baráttuna við tungumálið og svo framvegis. Þetta var ekkert væl eða eftirsjá því veran á Ítalíu hafði sannarlega líka góðar hliðar.

Stundum langar mig mikið að koma til Íslands. Það er auðvitað dagamunur á, en fyrir kemur að söknuðurinn yfir einhverju sem er á Íslandi og ekki hér í Danmörku hellist yfir mann. Þó að líf mitt hér í Danmörku sé nást einn langur dans á rósum koma dagar þar sem tilfinningin um útlegð verður yfirþyrmandi. Á Íslandi sakna ég margs, ég sakna míns fólks, fjölskyldu og vina; hinnar djúpu vináttu. Ég sakna náttúrunnar, vindsins, grassins á umferðareyjunum, ég sakna fuglanna á Tjörninni og lyktarinnar af birkitrjám. Ætli tilfinningin magnist ekki í þessari veirutíð þegar ferðalög eru erfiðari.

En að öðru. Ég hef lengi ætlað að kaup bók Peters Handke, Óskabarn ógæfunnar, í þýðingu Árna Óskarssonar. Ég gæti alveg lesið hana á dönsku því hún er til hér á heimilinu en mig langar að lesa hana á íslensku, sérstaklega af því að ég er viss um að þýðing Árna Óskars sé framúrskarandi. Hann kann að skrifa hann Árni. Á aðra bók hef ég líka lengi horft löngunaraugum: Gamlar konur detta út um glugga eftir Daniel Kharms. En þrátt fyrir að ég er handviss um að þessar tvær bækur langi mig að lesa á íslensku hef ég samt enn ekki pantað þær – bækurnar hafa legið í innkaupakörfu netverslunar Forlagsins í nokkurn tíma en ég hef aldrei gengið frá kaupunum. Ástæða hiksins er að ég veit hvað danskir tollheimtumenn gera mér lífið leitt þegar ég kaupi bækur frá Íslandi. Ekki bara að ég þarf að borga tvöfaldan virðisaukaskatt, einföld aðflutningsgjöld og ég veit ekki hvað, heldur þarf ég líka stundum að ferðast yfir sjó og land til að ná í bækurnar hjá tollheimtumönnunum. En nú ætla ég að láta mig hafa það og ég geng frá kaupunum á þessum tveimur bókum NÚNA.

Ég ætlaði að skrifa um gífurlegt rekstrartap skrifverksmiðjunnar minnar og um áætlanir mínar um að snúa rekstrinum við (ég rek ekki tapfyrirtæki!!) en ég bíð með það um sinn.

ps. Sölvi gengur í hjónaband í dag!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.