Espergærde. Fermingin.

Ég er tímabundinn, ég er á leið í fermingarveislu og morguninn hefur farið í skrepp og skutl. Davíð fermist svo bráðum, þann 5 september. Hann gengur til prests, eins og það heitir, og á að læra um kristindóminn. Ég veit ekki hversu mikinn áhuga hann hefur á því. Þótt ég sé prestssonur, hafði ég sem fermingarbarn engan áhuga á að læra um hugmyndafræði kristninnar, biblíusögurnar og allt það sem fylgir hinni kristnu menningu. Sennilega hafa fáir á fermingaraldri áhuga á því og sem prestssonur gerði ég hálfgerða dyggð úr því að láta þetta kristindómstal fara framhjá mér.

En svo kom sjálfur fermingardagurinn minn og ég var klæddur hvítum kirtli í fermingunni – ég var saklaus drengur með síða, ljósa lokka, stórt nef og kanínutennur – og við gegnum upp til altarins og ég fann hvernig treginn helltist yfir mig þegar fermingarsálmurinn var sunginn. Eiginlega kannski frekar angurværri sorg yfir sjálfum mér og lífinu. Við stilltum okkur upp í röð frammi fyrir altarinu, 15 fermingarbörn, og svo kom presturinn sem var pabbi minn. Hann hafði gengið á röðina með eina spurningu. Og svo kom röðin að mér. Ég horfði í augu pabba míns sem var alvarlegur á svipinn, lét ekki sjá á sér að ég hefði aðra stöðu en hin fermingarbörnin þótt ég væri barnið hans og stæði frammi fyrir honum: „Vilt þú, Snæbjörn Arngrímsson, gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?“ (Einhvern veginn svona er fermingarheitið.)

Það var eins og ég hefði fengið þungt hnefahögg í magann þegar spurningin beindist að mér. Ég greip andann á lofti ég mátti ná taki á drengnum sem stóð við hliðina á mér til að lyppast ekki niður fyrir framan pabba minn prestinn. Skyndilega fann ég fyrir þunga spurningarinnar og hversu mikilvægt svar mitt var. Þetta var alvara. Í öllum hinum þunga trega fann tárin spretta fram, fann hvernig eitt tár slapp úr augnkróknum og rann niður kinnina á mér. Og ég horfði á góðlegan svip pabba míns og allt í einu fannst mér eins og ég hefði brugðist honum með minni kæruleysislegu afstöðu til kristninnar sem var honum svo mikilvæg. Hann horfði á mig fullur hluttekningar og tók rólega í höndina á mér og beið eftir svarinu eins og það skipti öllu máli. „Já,“ sagði ég titrandi röddu.

Það tók mig marga mánuði – jafnvel mörg ár – að jafna mig á athöfninni og því loforði sem ég gaf. Ég lærði snemma að það versta sem ég gerði væri að standa ekki við það sem ég segði. Að svíkja loforð var stórkostlegur blettur og ef maður vildi vera heiðarlegur sviki maður aldrei loforð. Þetta hefur fylgt mér alla tíð.

Ég held að sonur minn taki ferminguna ekki svona alvarlega. Þó get ég ekki vitað það. Ég held að pabbi minn presturinn uppgötvaði aldrei þína skrýtnu sálarbaráttu við fermingarheitið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.