Espergærde. Undarlegra en gæskan.

Ég frétti af því í veislu um helgina að Nick Cave, tónlistarmaðurinn, hefði sett upp heimasíðu: https://www.theredhandfiles.com/ þar sem hann hvetur fólk til að leggja fyrir hann spurningu og hann muni gera sitt besta til að svara spurningunni af heiðarleika og birta hvort tveggja á þessari síðu. Þótt ég eigi skelfilega annríkt í dag, og þessa daga, stóðst ég ekki þá freistingu að stinga höfðinu inn um gættina hjá Nick til að sjá spurningar og svör. Ég gaf mér ekki langan tíma. Þarna er langur listi spurninga og stundum löng og ítarleg svör, stundum stutt og snubbótt.
Dæmi:
Spurning: „Kæri Nick, ég heyrði að þú værir að vinna að lagi með Kanye West. Er það rétt?“
Svar: „Nei.“

Sú spurning sem vakti auðvitað mestan áhuga minn – ég er nú eins og ég er – var beiðni ástralskrar stúlku um að Nick veldi þær 40 bækur sem hefðu haft mest áhrif á hann. Nick varð við beiðni stúlkunnar og skrifaði lista með meira en 50 bókum. Ég þekkti ekki allar bækurnar en mér þótti gaman að sjá að hann valdi meðal annars smásögur Tsjekhovs á listann.

En mér til undrunar sagði Nick frá því að hann hefði ekki getað vandað sig við gerð bókalistans því hann hafði sent til Kaupmannahafnar allar þær 5000 bækur sem hann hafði safnað í gegnum árin og geymdi að jafnaði í bókahillunum sínum. Hann gat því ekki rennt yfir bókasafn sitt við gerð listans. Ég varð auðvitað forvitinn að skilja hvers vegna hann hafði sent bækurnar til Kaupmannahafnar. Eftir stutta rannsókn komst ég að því að í Kaupmannahöfn er sýning tileinkuð Nick Cave sem heitir Stranger than Kindness. Þar er safnað saman hlutum í eigu Nick Cave og reynt að skapa rými sem sýnir heim Caves og sýna þá hluti sem er uppspretta sköpunarkraftsins. Ég vissi ekkert um þessa sýningu en nú er ég búinn að panta miða. Yo!

ps. Ég heyrði af ljóðskáldi sem lifir víst þokkalega ágætu lífi á því að vera ljóðskáld og tilheyra ákveðnu fámennu samfélagi skálda sem stundar ljóðahátíðir. Ég hélt að það væri gersamlega ómögulegt að hafa í sig og á með ljóðagerð. En samkvæmt þessari heimild mun vera til lítill undirheimur, svokallað ljóðahátíðasamfélag, þar sem ljóðskáld flakka á milli ljóðahátíða víðs vegar um veröldina. Ljóðskáldin fá borgað far, uppihald og upplestrarfé sem nægir einu ljóðskáldi til að halda lífi, sé maður nógu dugleg(ur) að þiggja hátíðarboðin. Þetta þótti mér gaman að heyra.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.