Espergærde. Hver er Anna Kristjánsdóttir?

Til að fylgjast með lífinu á Íslandi les ég stundum mbl.is. Að vísu furða ég mig næstum í hvert sinn sem ég opna síðuna hvað mér finnst fréttamiðillinn lélegur. Og það er sumt sem ég á erfitt með að skilja og kenni ég minni löngu útlandadvöl um. Eitt af því eru stöðugar fréttir af einhverri konu sem heitir Anna Kristjánsdóttir og býr á Tenerife. Í viðskiptafréttum dagsins hjá mbl.is segir frá því að þessi Anna hafi keypt gamlan Mercedes Benz. Ég skil ekki alveg fréttina en það eru margar svona fréttir af þessari Önnu. Ég veit ekki hvort þetta eigi að vera grín. En mér hefur ekki tekist að þróa með mér áhuga á þessari konu þótt hún sé örugglega bæði góð og skemmtileg. Og svo á hún Mercedes Benz.

Þýðingin mjakast áfram. Ég þurfti enn og aftur að vinna fram á kvöld í gær til að ná markmiði dagsins. Ég hef eitthvað tognað í vöðva aftan á lærinu sem nær upp í vinstri rasskinn. Ég á því furðulega erfitt með að sitja og þarf eiginlega að sitja á hægri rasskinn. Þegar ég þarf að vera í sitjandi stellingu í 12 tíma á dag verð ég ansi skakkur allur og aumur. En ég hljóp samt í morgun í hellirigningu. Regnið var svo þungt að malarvegurinn sem ég hleyp á hluta leiðarinnar var allur eitt drullusvað.

En ég er kominn aftur til baka, skítugur upp fyrir haus, og sestur á hægri rasskinn við þýðingarstörfin. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.