Espergærde. Ástkona á sólarströnd.

Í gær átti ég von á heimsókn frá leikkonu. Að vísu varð ekkert af heimsókninni en á meðan ég beið eftir gestinum úti á tröppum kom ungi póstdrengurinn. Ég hef notað hann í sögu sem kemur út í haust en það veit hann ekki og fær aldrei að vita. Ég kann vel við póstdrenginn – þess vegna er hann persóna í bókinni – og ég reyni að spjalla við hann í hvert sinn sem við hittumst. Í gær gat ég gefið honum einn harðfiskpakka því ég hafði keypt nokkrar birgðir þegar ég var á Íslandi. Hann fór hjá sér þegar ég rétti honum pakkann því hann er bæði feiminn og hógvær. Hann hefur oft sagt mér hvað honum þyki harðfiskur góður.

Ég held að hann hafi viljað þakka mér fyrir harðfiskpakkann með því að beina talinu inn á svið bókmennta þótt hann hafi sjálfur engan áhuga á þeim. „Segðu mér … hehe … ég er að vonast til að komast í frí um miðjan september og hef pantað far til Kýpur. Mig langar til að komast í hita. Mér finnst svo gott að liggja á strönd og hálfsofa … hehe. En mig langar líka að prófa að lesa bók. Ég veit bara ekkert um bækur. Hvaða bók ætti ég að lesa? Þú veist svo margt um bækur … ertu ekki svona bókaprófessor … hehe.“

Ég hef aldrei fyrr heyrt póstdrenginn segja svona margar samhangandi setningar. Venjulega er hann of feiminn til að segja meira en eina setningu í einu. En nú hafði hann sett mig í vanda. Hvaða bók á maður að velja fyrir ungan, einhleypan póstdreng, sem langar að prófa að lesa bók á meðan hann liggur á sólarströnd á eyjunni Kýpur? Ég hugsaði mig um og ég furðaði mig á því að mér skyldi strax detta í hug Ástkona franska lautinantins eftir John Fowles. Auðvitað gerði ég mér strax grein fyrir því að það var ekki bók fyrir ungan póstdreng sem aldrei les bækur. Kannski datt mér hún í hug vegna þess að sjálfur hef ég einu sinni verið á sólarströnd – það var furðulegt þriggja vikna boðsferðalag til Spánar – og einmitt í þeirri ferð las ég Ástkonu franska lautinantsins og það var ógleymanleg reynsla. Mér þótti bókin svo stórkostleg að ég átti lengi erfitt með að draga andann svo hrærður var ég.

Kannski datt mér þessi bók líka í hug vegna þess að mér var um daginn sagt frá ungri konu sem tók sér langferð á hendur til að finna ástina sína og til ferðarinnar tók hún einmitt með sér Ástkonu franska lautinantins. Ég veit ekki hvort hún tók þessa bók með í ferðalagið af því að hún taldi sig geta lært eitthvað um ástina af því að lesa söguna. Ekki get ég dæmt um það. Nú eru svo mörg ár síðan ég gleypti í mig þessa fínu sögu hans Fowles um Ástkonuna, svo mörg ár að ég man eiginlega ekkert úr sögunni. Ég finn bara enn þessi sterku hughrif. Raunar las ég aðra bók Fowles strax í kjölfarið, Safnarinn, og hún hafði líka ansi sterk áhrif á mig.

En hvað átti ég að segja við póstdrenginn sem horfði eftirvæntingarfullur á mig á meðan ég gleymdi mér í hugleiðingum um John Fowles. Ég vildi svo innilega geta gefið honum góð ráð en mér datt bara ekkert í hug þarna á dyratröppunum sem gæti glatt þennan feimna póstdreng. Á endanum varð ég að gefast upp. „Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig. Mér dettur helst í hug einhver glæpasaga, Jo Nesbø eða eitthvað slíkt en ég veit ekki hvort þér líkar það. Kannski er bara best að þú hvílir þig á Kýpur. Ekki vera að pína þig til að lesa bækur. Þú skalt bara hálfsofa.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.