Espergærde. Bókmenntaverkfræðingur

Það mætti halda að ég hefði fundið upp á nýrri aðferð til að minna á mig því skyndilega, þegar ég kom móður og másandi, sveittur og glansandi, inn úr dyrunum eftir mitt langhlaup í morgun, byrjaði síminn minn sem lá úti í gangi að titra, dingdonga og lýsa. Ég var of örmagna til að taka upp símann og lét hann bara dansa sinn dans á borðinu um stund.

Eftir nokkra mæðu hafði ég safnað nægum kröftum til að líta á símann og þá uppgötvaði ég mér til skelfingar að ég hafði fengið tugi tölvupósta á síðustu mínútunum; bæði auto-reply og alvöru tölvupósta. Þetta var greinlegt. TÖLVUVÍRUS. Svo virðist sem einhver hafi sent póst í mínu nafni á allan minn langa póstlista í tölvunni. Einhverjum hefur tekist að lauma sér í gegnum kaktusinn.is og inn í tölvuna mína. Ekki veit ég hvernig svona svindlarar fara að en þessi tölvupósthrina var ekki til að vekja athygli sjálfum á mér og fá alla mína kontakta til að senda mér tölvupóst. En sem sagt ekki opna dularfullan póst frá mér.

Ég fylgist með Núma nýstúdent fikra sig eftir fullorðinsveginum bæði með forvitni og áhuga. Nú er hann byrjaður að vera free-lance þjónn, free-lance námsleiðbeinandi og starfsmaður IRMA. Allt er gott. Hann hefur þegar náð að þéna hærri mánaðarlaun en ég og það er hann gífurlega ánægður með. Um leið er hann aðeins farinn að skoða hugsanlegar námsleiðir á háskólastigi. Í gær var það verkfræðinámið sem hann kíkti á og ég sá að þar eru óteljandi leiðir; róbótaverkfræði, gervigreindarverkfræði, ferðir kókbílsverkfræði og það eru eiginlega ekki neitt sem ekki er hægt að setja inn í verkfræðinámið. Mig hefur alltaf langað til að vera verkfræðingur. Ég yrði að vísu sögulega lélegur þar sem ég hef ekki hæfileika til að fylgja beinum línum – hin eilífa hrösun. En einni verkfræðinámslínu held ég að ég gæti sinnt sómasamlega. Það er hin svokallaða bókmenntaverkfræði. Það er 5 ára nám sem krefst hæstu meðaleinkunnar úr menntaskóla. Ég er að hugsa um að sækja um.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.