Espergærde. Hinn hálslausi

Á veginum milli akrana, hér rétt fyrir utan bæinn, mætti ég niðurlútum manni í gráum frakka. Hann hafði dregið frakkakragann upp og til að gera göngulagið enn aumkunarverðara hafði líka híft axlirnar upp að eyrum. Við þekkjumst, eða hvað maður á að kalla svona kunningsskap.

Þegar við nálguðumst hvor annan – það get ég sagt því maðurinn kom úr gagnstæðri átt – herti ég upp hugann, skrúfaði upp sálarorkuna því ég vissi að í samskiptum okkar er það ég sem leiði samtölin okkar á milli. Ég sá út undan mér að úr austri þokuðust kolsvört óveðursský yfir akrana. Á þessum fáu metrum sem skildu okkur að náði ég að velta fyrir mér hvernig á því stæði að það væri alltaf ég sem fékk það hlutverk að stýra samtölum okkar þótt dökkhærði maðurinn, sem nálgaðist mig hratt, gæti sannarlega kallast orðsins maður. Ég veit ekki hvað hann gerir daglega, ég held að hann sé einskonar ræðuskrifari eða upplýsingafulltrúi (ég er ekki viss) en ég sé hann alltaf fyrir mér með penna í hönd. Ég veit að hann vinnur eitthvað með hið skrifaða orð. Kannski var það vandinn að hann er bara góður til að skrifa orð en ekki tala.

„Sæll,“ sagði ég eins hressilega og ég gat og staldraði við.
„Sæll,“ svaraði hann með fullkomlega flatri röddu og nam ekki staðar heldur gekk framhjá mér.

Ég varð frekar undrandi. Ég hafði undirbúið samtal. En hann hélt áfram göngunni með axlirnar upp að eyrum án þess að nema staðar og ég stóð og horfði á eftir honum. Baksvipurinn var stífur, eins og hjá manni sem hefur engan háls.

Úr því að ekkert varð af samtali okkar hélt ég því áfram göngu minni, setti stefnuna niður á höfn og tók nokkrar myndir áður en ég sneri aftur heim til að fara á tennisæfingu. Á morgun tek ég þátt í meistaramóti Tennisfélags Espergærde. Það er í fyrsta sinn sem ég er þátttakandi í slíku tennismóti!

ps. var ekki Haukur Ingvarsson að verja doktorsritgerðina sína í þessari viku? Ég verð að muna að óska honum til hamingju þegar ég hitti hann næst. Hann á það skilið að maður óski honum hamingju.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.